Körfubolti

Manchester heim­sækir Síkið og Tinda­stóll fer til fjögurra landa

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Tindastóll mun spila Evrópuleik í Síkinu í fyrsta sinn í vetur.
Tindastóll mun spila Evrópuleik í Síkinu í fyrsta sinn í vetur. vísir / hulda margrét

Tindastóll skráði sig til leiks í Norður-Evrópudeildinni í körfubolta í vetur og mun spila að minnsta kosti átta auka leiki ofan á álagið í deildar- og bikarkeppninni heima fyrir. Nú er ljóst hvaða liðum Stólarnir mæta, hvert þeir ferðast og hvaða lið heimsækja Síkið.

27 lið verða skráð til leiks í keppninni. Þeim er skipt í þrjá 9 liða hópa sem mætast innbyrðis, öll lið spila fjóra heimaleiki og fjóra útileiki frá 23. september til 11. febrúar. 

Hér má sjá öll lið keppninnar og riðilinn sem Tindastóll dróst í. Þrjú lið eiga enn eftir að skrá sig til leiks.

Sextán sigursælustu liðin halda svo áfram í úrslitakeppnina. Í sextán liða úrslitum (4. - 12. mars) verður spilað eins leiks einvígi en í átta liða úrslitum (17. mars - 2. apríl) verður spilað tveggja leikja einvígi. Úrslit mótsins munu svo ráðast í fjögurra liða lokamóti helgina (21. - 23. apríl).

Leikir Tindastóls í Norður-Evrópudeildinni. 

1. október: Slovan Bratislava - Tindastóll, útileikur í Slóvakíu.

14. október: Tindastóll - Gimle, heimaleikur gegn norsku liði.

20. október: BK Opava - Tindastóll, útileikur í Tékklandi.

11. nóvember: Tindastóll - Manchester Basketball, heimaleikur gegn bresku liði.

9. desember: Keila - Tindastóll, útileikur í Eistlandi.

6. janúar: Prishtina - Tindastóll, útileikur í Kósovó.

20. janúar: Tindastóll - Ótilgreint lið frá Króatíu, útileikur.

10. febrúar: Tindastóll - Brussles Basketball, heimaleikur gegn liði frá Belgíu.

Evrópuleikirnir eru alltaf á mánudögum, þriðjudögum eða miðvikudögum og skarast því ekki á við leiktímann í Bónus deildinni, sem spilar vanalega á fimmtudögum og föstudögum. Eðli málsins samkvæmt verður leikjaálagið og ferðaþreytan samt mun meiri hjá Tindastóli en öðrum liðum deildarinnar. 

Tindastóll er fyrsta félagið sem tekur þátt í þessari keppni en Stólarnir tóku þátt í annarri Evrópukeppni árið 2023, undankeppni FIBA Europe bikarsins. Stólarnir unnu þá Parnu Sadam, 69-62, en töpuðu fyrir BC Trepca Mitrovica, 69-77 og sátu eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×