Fótbolti

Ný dýrasta knattspyrnukona heims

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lizbeth Ovalle var mjög sigursæl með Tigres UANL og hér er hún með einn af mörgum bikurum sem hún vann með félaginu.
Lizbeth Ovalle var mjög sigursæl með Tigres UANL og hér er hún með einn af mörgum bikurum sem hún vann með félaginu. EPA/MIGUEL SIERRA

Olivia Smith er ekki lengur dýrasta knattspyrnukona heims. Metið hefur skipt ört um hendur síðustu misseri og nú er það komið í hendurnar á mexíkóskri landsliðskonu aðeins mánuði eftir að Smith eignaðist það.

Bandaríska félagið Orlando Pride er að gera Lizbeth Ovalle að dýrustu knattspyrnukonu heims með því að kaupa hana frá Femenil Tigres í Mexikó fyrir 1,5 milljónir Bandaríkjadala. Orðrómur var uppi að hún kostaði tvær milljónir dala en samkvæmt heimildum ESPN er upphæðin aðeins lægri en það.

Smith kostaði Arsenal 1,3 milljónir dala þegar Evrópumeistararnir keyptu hana frá Liverpool í síðasta mánuði og Chelsea keypti bandaríska varnarmanninn Naomi Girma fyir 1,1 milljón dala í janúar. Heimsmetið er því að falla í þriðja sinn á þessu ári.

Ovalle er 25 ára gömul og spilar sem vængmaður. Hún hefur skorað 136 mörk og gefið 107 stoðsendingar í 294 leikjum fyrir Tigres liðið síðan hún spilaði sinn fyrsta leik árið 2017.

Hún vakti heimsathygli í mars fyrir að skora magnað mark þegar hún tók boltann viðstöðulaust á lofti með hælnum. Markið má sjá hér fyrir ofan.

Það var eins og Ovalle hafi þarna sameinað alla erfiðustu aðferðirnar til að skora fótboltamark. Hefði þetta verið fimleikaæfing þá hefði erfiðleikastuðullinn líklegast sprengt alla skala.

Ovalle skoraði nefnilega með því að taka boltann viðstöðulaust á lofti, hún snéri öfugt og skoraði með því að skjóta aftur fyrir sig og með því að skora með hælnum.

Þetta væri vanalega kallað sporðdrekaspark en hún snéri samt öfugt og tókst einhvern veginn að fleyta boltanum í fjærhornið með einhverskonar karatesparki.

Það er ekkert skrýtið að mönnum skorti lýsingarorðin en hún sjálf talaði um að kalla þetta La gamba eða rækjuna.

Ovalle verður með þessu fyrsti leikmaðurinn frá Mexíkó, karl eða kona, til að halda titlinum sem sá dýrasti í heimi. Femenil Tigres fær líka ekki aðeins þessar 186 milljónir íslenskra króna því mexíkóska félagið tryggði sér einnig tíu prósent af framtíðarsölu á Ovalle.

Ovalle hefur sex sinnum orðið meistari í Mexíkó og var valin í úrvalslið Gullbikarsins í sumar þar sem hún spilaði mjög vel með landsliðinu. Nú ætlar hún að reyna sig í bandarísku atvinnumannadeildinni og þar verður pressa á henni frá fyrsta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×