Fótbolti

Grófu sig undir girðingu og stálu milljónum frá fé­laginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn NEC Nijmegen fagna marki. Þeir áttu að spila í sérstökum afmælisbúingum sem áttu síðan að fara í sölu en stórum hluta búninganna var stolið.
Leikmenn NEC Nijmegen fagna marki. Þeir áttu að spila í sérstökum afmælisbúingum sem áttu síðan að fara í sölu en stórum hluta búninganna var stolið. EPA/Vincent Jannink

Hollenska úrvalsdeildarfélagið NEC Nijmegen var fórnarlamb bíræfna þjófa í vikunni en brotist var inn í höfuðstöðvar félagsins.

NEC Nijmegen segir frá því á heimasíðu sinni að þjófarnir hafi haft á burt vörur fyrir fimmtán þúsund evrur eða meira en tvær milljónir íslenskra króna.

Meðal þess sem var stolið voru sérstakir æfmælisbúningar sem átti að selja í takmörkuðu upplagi.

NEC Nijmegen heldur í ár upp á 125 ára afmæli félagsins.

Framkvæmdastjórinn Wilco van Schaik segir frá því að þjófarnir hafi komist inn á svæðið með því að grafa sig undir girðingu.

Eftir þennan stórþjófnað eru aðeins nokkur hundruð afmælistreyjur eftir en vinsælustu stærðirnar. L, XL og XXL, voru einmitt þær stærðir sem þjófarnir sóttu mest í.

„Afmælistreyjurnar eru mikils virði og þetta eru mikil vonbrigði ekki síst fyrir starfsfólkið sem lagði svo mikið á sig við framleiðslu þeirra. Þetta er mikið áfall fyrir þau,“ sagði Wilco van Schaik við Algemeen Dagblad.

Þjófnaðurinn náðist á myndband og félagið er í nánu samstarfi við lögregluna til að reyna að hafa upp á þjófunum.

Félagið biðlar einnig til félagsmanna og stuðningsmanna sinna um að hafa augun opin ef einhver býður þeim að kaupa treyju eða annan varning sem var stolið.

Hannes Þór Halldórsson og Guðlaugur Victor Pálsson spiluðu báðir fyrir NEC Nijmegen á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×