Fótbolti

Val­geir fékk að spila og lagði strax upp í fyrsta sigrinum

Sindri Sverrisson skrifar
Valgeir Lunddal Friðriksson átti sinn þátt í sigri Fortuna Düsseldorf í dag.
Valgeir Lunddal Friðriksson átti sinn þátt í sigri Fortuna Düsseldorf í dag. Getty/Christof Koepsel

Eftir að hafa horft af varamannabekknum á liðsfélaga sína tapa fyrstu tveimur leikjum tímabilsins, í þýsku 2. deildinni í fótbolta, var landsliðsmaðurinn Valgeir Lunddal Friðriksson áberandi í 2-1 útisigri Fortuna Düsseldorf á Paderborn í dag.

Paderborn hafði misst miðvörðinn Tjark Lasse Scheller af velli með rautt spjald eftir aðeins tólf mínútna leik þegar hann braut af sér sem aftasti maður, og gestirnir nýttu sér þann liðsmun vel.

Valgeir kom inn í byrjunarliðið, eftir að hafa spilað seinni hálfleikinn í 4-2 bikarsigri gegn Schweinfurt á mánudaginn, og var ekki lengi að láta til sín taka. Hann lagði upp fyrsta mark leiksins, á 35. mínútu, þegar Cédric Itten skoraði. Florent Muslija jók svo muninn í 2-0 fyrir hálfleik en heimamenn minnkuðu muninn þegar skammt var eftir af leiknum.

Þetta var fyrsta tap Paderborn á leiktíðinni og um leið fyrstu stigin sem Fortuna fær eftir að hafa tapað gegn Hannover og Bielefeld í fyrstu leikjunum.

Í Danmörku gerðu Ísak Snær Þorvaldsson og félagar í Lyngby markalaust jafntefli við topplið Horsens á heimavelli, í B-deildinni.

Lyngby er því með 11 stig í 5. sæti deildarinnar, eftir sjö umferðir, en Horsens áfram efst með 15 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×