Innlent

Met­að­sókn og söfnunarmet slegið

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Tæplega átján þúsund manns hlupu í Reykjavíkurmaraþoninu í ár.
Tæplega átján þúsund manns hlupu í Reykjavíkurmaraþoninu í ár. Vísir/Vilhelm

Metaðsókn var í Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka sem fór fram á laugardaginn. Skráðir þátttakendur voru 17.786, sem eru rúmlega þrjú þúsund fleiri en á síðasta ári. Þegar þetta er ritað hafa safnast yfir 321 milljónir, og er það söfnunarmet. Enn er hægt að heita á hlaupara fram á miðnætti.

Í tilkynningu frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur segir að í ár hafi verið tekið upp nýtt fyrirkomulag á ræsingum. Hnökrar hafi komið upp í fyrri ræsingum dagsins í heilu og hálfu maraþoni vegna margmennis.

„Ferlið við að fylla upp í rás­hólf gekk ekki alveg eins og vonast var til og skapaðist því nokkur óvissa hjá þátttakendum um staðsetningu sína. Langflestir voru þó á réttum stað, en fyrirkomulagið var kynnt rækilega í aðdraganda hlaupsins í póstum til þátttakenda og á samfélagsmiðlum. Leitað verður leiða til að koma þeim skilaboðum enn betur á framfæri á næsta ári,“ segir í tilkynningu.

Jafnframt segir að í tengslum við einstök atvik á braut hafi ÍBR kynnt sér málið.

„Við höfum upplýsingar um tvö möguleg atvik þar sem hlauparar fóru út af braut. Í öðru atvikinu hafi hlaupari farið út af braut þar sem brautarvörður var í umferðagæslu. Fyrir framan fremstu hlaupara eru undanfarar á hjólum sem vísa leiðina og þykir okkur mjög leiðinlegt að þetta atvik hafi komið upp.“

„Íþróttabandalag Reykjavíkur þakkar öllum þátttakendum, samstarfsaðilum, áhorfendum, starfsfólki, sjálfboðaliðum og öllum þeim sem tóku þátt í að skapa þennan frábæra viðburð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×