Erlent

Tilraunaskotið heppnaðist loksins

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá geimskotinu í nótt. Um mikið sjónarspil var að ræða.
Frá geimskotinu í nótt. Um mikið sjónarspil var að ræða. AP/Eric Gay

Tíunda tilraunaskot starfsmanna SpaceX með Starship geimfarið heppnaðist í nótt. Var það eftir nokkurra daga tafir og misheppnaðar fyrri tilraunir. Að þessu sinni líkti geimskipið sjálft eftir lendingu á Indlandshafi og Super Heavy eldflaugin sem bar geimskipið á loft líkti eftir lendingu á Mexíkóflóa.

Einnig heppnaðist að dreifa eftirlíkingum Starlink gervihnatta á braut um jörðu og var það í fyrsta sinn sem það gengur eftir með Starship.

Áður hafði geimskipið sprungið í loft á jörðu niðri. Þar áður misheppnaðist níunda tilraunaskotið þegar Starship splundraðist eftir 45 mínútna flug.

Starship-kerfið samanstendur af gríðarstórri eldflaug og af um fimmtíu metra löngu geimfari sem ber nafnið Starship. Bæði stig kerfisins eru hönnuð til að geta verið notuð fljótt aftur, eins og SpaceX hefur gert með Falcon-eldflaugarnar.

Stæða Super Heavy eldflaugarinnar og Starship er 120 metrar á hæð. Eldflaugin er búin 33 Raptor hreyflum sem brenna metan og fljótandi súrefni.

Starship á að vera grunnurinn að framtíð SpaceX. Með því að þróa fullkomlega endurnýtanlega eldflaug og geimfar gæti fyrirtækið dregið enn frekar úr kostnaði við geimskot og framkvæmt þau mun oftar en samkeppnisaðilar. Nota á Starship og Super Heavy til að flytja menn og birgðir til tunglsins og jafnvel lengra út í geim með mun minni tilkostnaði en samkeppnisaðilar hafa burði til.

Stórt skref

Í tilkynningu frá SpaceX segir að árangurinn marki stórt skref fram á við í þróun Starship. Öllum markmiðum tilraunaskotsins hafi verið náð og að starfsmenn SpaceX hafi safnað gífurlega mikilvægum upplýsingum sem nýtast munu við þróun samstæðunnar.

Starfsmenn SpaceX settu sérstaklega mikið álag á hitaskjöld Starship og geimskipið sjálft þegar það féll aftur til jarðar, eftir að hafa komið gervihnattaeftirlíkingunum á sporbraut. Þrátt fyrir það tókst geimskipinu að snúa í loftinu og líkja eftir lendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×