Fótbolti

Ástin sögð á­stæða þess að Sancho vilji ekki Roma

Sindri Sverrisson skrifar
Jadon Sancho og Saweetie hafa verið að hittast allt þetta ár.
Jadon Sancho og Saweetie hafa verið að hittast allt þetta ár. Samsett/Getty

Blaðamenn ítalska stórmiðilsins La Gazzetta dello Sport telja sig hafa fundið ástæðuna fyrir því hve treglega hefur gengið hjá Roma að landa enska knattspyrnumanninum Jadon Sancho frá Manchester United. Hann mun vera ástfanginn af bandarískri rappgellu.

Roma hefur reynt allt til þess að fá Sancho áður en lokað verður fyrir félagaskipti 1. september. Ricky Massara, yfirmaður íþróttamála hjá félaginu, fór meðal annars til London í gær til að ræða við umboðsmann Sancho en ekkert gengur.

Ástæðan er víst ekki launamál, og Roma var tilbúið að greiða United 23 milljónir evra fyrir Sancho, sem er á sínu síðasta ári hjá félaginu miðað við núgildandi samning.

Samkvæmt Gazzetta bendir ýmislegt til þess að Sancho vilji ekki fara til Rómar vegna sambands síns við hina bandarísku Saweetie.

Hún er sögð ástæðan fyrir því að Sancho vilji ekki fara til Roma né aftur til Dortmund. Hann vilji raunar ekki spila í Evrópu heldur sé með hug á að komast í bandarísku MLS-deildina.

Sancho mun hafa verið að ferðast um það bil þrisvar sinnum í mánuði til Bandaríkjanna til þess að hitta Saweetie en samband þeirra hófst undir lok síðasta árs.

Ef að ekkert gerist á næstu dögum gæti Sancho mögulega endað á að vera áfram leikmaður United en utan leikmannahóps Ruben Amorim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×