Innlent

Vara við svikapóstum í þeirra nafni

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Fölsk auglýsing er í dreifingu í nafni Hagkaupa.
Fölsk auglýsing er í dreifingu í nafni Hagkaupa. Vísir/Vilhelm

Hagkaup varar við svikapóstum sem nú eru í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem notendum er boðið að svara stuttri könnun gegn því að fá kassa af ilmvötnum.

„Við höfum fengið fregnir af því að svikapóstar séu í dreifingu í okkar nafni. Við viljum ítreka að við myndum aldrei biðja um greiðslu eða kortaupplýsingar í tengslum við gjafaleiki eða aðrar kynningar,“ stendur í tilkynningu á Facebook-síðu Hagkaupa.

Á skjáskoti sem fylgir færslunni sést auglýsing undir formerkjum Ilmhússins þar sem fólk er hvatt til að svara könnun á heimasíðu og fá í staðinn kassa af ilmvötnum. Þar fylgir mynd af konu sem heldur á kassa með myndum af alls konar myndböndum. Svo virðist sem myndin sé búin til af gervigreind. 

Við nánari athugun virðist Facebook-síða Ilmhússins hafa verið búin til fyrr í dag. Undir umræddri færslu eru átta athugasemdir þar sem fólk lofsamar ilmvötnin og birtir myndir af þeirra setningu. Í athugasemdunum stendur til að mynda „Mjög góð ilmvatn“ og „Frábært sett! Pantaði það sem gjöf og öllum fannst ilmvatnið æðislegt.“ 

„Við hvetjum alla til að fara varlega, svara ekki slíkum póstum og smella ekki á tengla í þeim. Ef þú ert í vafa, vinsamlegast hafðu beint samband við okkur,“ segir í tilkynningu Hagkaupa.

Hagkaup eru ekki þau fyrstu sem lenda í því að fölskum myndum sé deilt. Til að mynda var djúpfölsuðu gervigreindarmyndbandi dreift þar sem til að mynda Halla Tómasdóttir mælti með óljósum fjárfestingakostum. 


Tengdar fréttir

Styttist í háþróuð gervi­greindar­svindl á ís­lensku

Dósent í tölvunarfræði segir ekki langt í að gervigreindartækni sem hermir eftir röddum fólks verði orðin svo góð að hægt verði að nota hana að blekkja Íslendinga, bæði á netinu og símleiðis. Stjórnvöld þurfi að bregðast við með einhverjum hætti.

Þekktum Ís­lendingum lögð orð í munn með gervi­greind

Myndband þar sem þjóðþekktum Íslendingum eru lögð orð í munn, með hjálp gervigreindar, er merki um varhugaverða þróun að mati sérfræðings. Stjórnmálamenn megi eiga von á því að verða fyrir barðinu á slíkum uppátækjum, en alvarlegra sé að blanda fjölmiðlafólki í slík myndbönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×