Enski boltinn

„Við vorum al­gjör­lega týndir“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er hægt að lesa ýmislegt á milli línanna í viðtali Ruben Amorim eftir leikinn í kvöld.
Það er hægt að lesa ýmislegt á milli línanna í viðtali Ruben Amorim eftir leikinn í kvöld. Getty/ George Wood

Ruben Amorim, stjóri Manchester United, var ekki upplitsdjarfur eftir að liðið datt út úr enska deildabikarnum í kvöld á móti D-deildarliði Grimsby Town. Þetta var skömmustulegt kvöld fyrir stórliðið.

„Þegar upp er staðið þá skiptir ekki máli hvort við náðum að jafna eða ekki. Skilaboðin í leiknum og hvernig við byrjuðum leikinn sögðu allt,“ sagði Amorim.

„Ég tel að betra liðið hafi unnið þennan leik og eina liðið sem var inn á vellinum,“ sagði Amorim.

„Bestu leikmennirnir tapa af því að öflug liðsheild getur unnið á móti hópi leikmanna. Liðið og leikmennirnir töluðu hátt í kvöld. Við töpuðum og betra liðið vann,“ sagði Amorim en hvað er hann að meina með því að leikmenn hafi talað hátt.

„Ég tel að það sé alveg ljóst hvað þeir voru að segja með þessari frammistöðu. Við höldum áfram en ég held að það sé alveg á tæru hjá öllum hvað gerðist í kvöld,“ sagði Amorim.

„Hvernig við byrjuðum leikinn með enga ákefð. Það var enginn að reyna að pressa og við vorum algjörlega týndir inn á vellinum. Þess vegna tala ég um að leikmennirnir mínir hafi sent hávær skilaboð í kvöld,“ sagði Amorim.

Það er erfitt að lesa annað úr þessu viðtal en að Amorim sé búinn að missa alla trú og hægt að búast við því að annað hvort hætti hann eða hann verður rekinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×