Upp­gjörið: FHL-Stjarnan 0-3 | Stjörnukonur sóttu þrjú stig austur

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Snædís María Jörundsdóttir skoraði fyrir Stjörnuna í dag.
Snædís María Jörundsdóttir skoraði fyrir Stjörnuna í dag. vísir/Anton

Stjarnan tryggði sér dýrmæt þrjú stig í dag með 0-3 sigri á FHL á Sún-vellinum í dag. Sigurinn lyftir Stjörnunni upp í 6. sæti deildarinnar og þar með í efri hluta deildarinnar. FHL situr áfram í neðsta sæti með þrjú stig og er í afar erfiðri stöðu.

Leikurinn byrjaði af miklu jafnræði en Stjarnan náði fljótlega undirtökunum. Fyrsta mark leiksins kom eftir klaufalegt sjálfsmark á 22. mínútu þegar Rósey Björgvinsdóttir skallaði boltann aftur fyrir sig í netið eftir samskiptaleysi við Keelan Terrel markvörð liðsins.

Bæði lið reyndu að sækja að marki hvors annars, en færin reyndust ekki hættuleg. Stjarnan fór því einu marki yfir í hálfleikinn.

FHL kom út í seinni hálfleikinn af krafti, en fengu svekkjandi mark á sig á 72. mínútu þegar Snædís María Jörundsdóttir kom boltanum í netið, nýkomin inn sem varamaður.

Heimakonur héldu áfram að sækja og náðu að skapa nokkur hættuleg færi, en það vantaði upp á snerpu, nákvæmni í sendingum og síðasta hlutann til þess að skila inn marki.

Stjörnukonur sigldu öllum þremur stigunum heim í uppbótatíma og niðurstaðan 0-3 fyrir Stjörnuna.

Með sigrinum fer Stjarnan upp í 6. sæti með 19 stig og kemur sér upp úr neðri hlutanum.

FHL áfram í botnsætinu og getur tæknilega séð bjargað sér frá falli, en það verður erfitt.

Atvik leiksins

FHL kom boltanum í netið á 80. mínútu en Jovan Subic, dómari leiksins, dæmdi það ekki gilt. Það var alveg ómögulegt að sjá hvers vegna. Svekkjandi fyrir heimakonur sem settu í 5. gír í seinni hálfleik og var frammistaðan þeirra þokkaleg.

Stjörnur og skúrkar

Rósey Björgvinsdóttir er því miður skúrkurinn í dag eftir sjálfsmarkið. Ábyrgðin er kannski ekki alfarið hjá henni heldur er það samskiptaleysið milli hennar og Keelan Terrell, markverði FHL. Mögulega veikleiki í liði FHL þegar kemur að samskiptum inni á vellinum.

Stemning og umgjörð

Alvöru landsbyggðarstemning á Sún-vellinum á Neskaupstað. Vallarþulurinn sat í brekkunni á tjaldstól við tjaldborð með hátalarana með sér. Þvílíkt útsýni sem völlurinn hefur uppá að bjóða.

Dómarar

Jovan Subic var á flautunni í dag, með honum á hliðarlínunum voru Óliver Thanh Tung Vú og Pálmi Víðir Bjarnason. Mér fannst aðeins ábótavant upp á dómgæsluna í fyrri hálfleik, mikið af brotum sem var ekki dæmt á. Það var eins og hann væri hræddur við flautuna í dag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira