Körfubolti

„Gul­rótin að vinna og henda Slóveníu úr mótinu“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kristinn Pálsson er brattur.
Kristinn Pálsson er brattur. vísir/hulda margrét

Kristinn Pálsson landsliðsmaður viðurkenndi fúslega að nóttin eftir tapið gegn Póllandi hefði verið erfið en menn hefðu staðið saman. Allir sem einn.

„Nóttin var ágætlega erfið. Við vorum svolítið saman og vorum að taka utan um hvorn annan og ræða það sem gekk á. Reyna að taka skref fram á við og taka það jákvæða úr leiknum því við spiluðum frábæran leik í gær,“ sagði Kristinn nokkuð brattur en hann segir það hafa sýnt sig í gær hversu sterkur hópurinn er.

Klippa: Kristinn ætlar að vinna Slóvenana

„Þetta lýsir þessu liði ágætlega vel. Það fór enginn í sitt horn að gráta í koddann. Menn tóku utan um hvorn annan og pössuðu að enginn færi í rúmið með allt á fullu í hausnum.“

Þrátt fyrir erfiða nótt var fókusinn fljótt kominn á leikinn við Slóvena. Strákarnir ætla að mæta með kassann úti í þann leik.

„Við þurfum að taka það jákvæða úr síðasta leik. Við spiluðum vel í seinni hálfleik. Við eigum heima á þessu sviði og erum að sýna það,“ segir Kristinn hvergi banginn.

„Þetta verður frábært verkefni og spennandi fyrir leikmennina að fá að takast á við einn besta leikmann heims. Síðan er gulrót í þessu að með sigri getum við kannski hent þeim úr keppni. Eyðilagt partýið hjá þeim. Það verður erfitt en við erum stórir í dag. Við erum með hausinn uppi. Við ætlum að vinna þennan leik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×