Körfubolti

„Var loksins ég sjálfur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martin Hermannsson reynir skot á körfuna en til varnar er ofurstjarnan Luka Doncic.
Martin Hermannsson reynir skot á körfuna en til varnar er ofurstjarnan Luka Doncic. vísir/hulda margrét

Martin Hermannsson átti sinn besta leik á Evrópumótinu í körfubolta þegar Ísland tapaði fyrir Slóveníu, 79-87, í dag. Martin var svekktur í leikslok en segir að íslenska liðið sýni leik eftir leik að það eigi heima á stærsta sviðinu.

„Tilfinningin er bara sú sama og eftir síðustu leiki. Þetta er ógeðslega fúlt. Svekkelsi. Maður leggur líf og sál í þetta en þetta eru bara smáatriði. Sem keppnismaður er alltaf ógeðslega erfitt að tapa,“ sagði Martin við Henry Birgi Gunnarsson eftir leikinn í Katowice. 

Klippa: Viðtal við Martin eftir tapið fyrir Slóveníu

„Það er margt sem maður getur sagt og farið yfir en ég er líka stoltur af okkur að vera komnir á stórmót, á svið sem við erum ekki vanir að vera á og erum alltaf í leik og látum ekki vaða yfir okkur sem hefur verið gegnumgangandi hjá íslenskri körfuboltaþjóð í gegnum tíðina. Við erum að spila á móti þremur sterkustu þjóðum Evrópu og erum í bullandi séns.“

Ekki stóð á svari er hann var spurður hvað hefur vantað upp á hjá íslenska liðinu á EM.

„Reynsluleysi. Ef við værum að spila á hverju einasta EM væri þetta öðruvísi. Þetta eru leikmenn sem eru hérna ár eftir ár eftir ár og kunna að vera hérna og stilla sig. Ég er búinn að spila á hæsta getustigi í Evrópu í 7-8 ár en þetta er samt nýtt fyrir mér. Það sást kannski best í dag að ég er aðeins búinn að stilla mig af. Ég var loksins ég sjálfur í dag. Þetta skrifast að mestu á reynsluleysi og svo væri fínt að hafa 2-3 leikmenn yfir tvo metra,“ sagði Martin sem skoraði 22 stig og gaf sex stoðsendingar.

Hann segir að íslenska liðið sé komið langt og eigi fyllilega skilið að spila meðal þeirra bestu.

„Ef við gætum sett saman frammistöðu úr þessum fyrstu fjórum leikjum værum við með sigur. Í dag voru við frábærir í sókn, gegn Póllandi vorum við frábærir í vörn en það vantaði aðeins upp á það í dag. Þetta skrifast bara á reynsluleysi. Við erum orðnir ógeðslega góðir í körfubolta. Ég held að fólk verði að átta sig á því. Við erum mættir á stórmót og það eru allir brjálaðir að við séum ekki að vinna,“ sagði Martin sem hefur spilað á öllum þremur Evrópumótum sem Ísland hefur tekið þátt á.

„Á mótunum 2015 og 2017 fengum við medalíu. Við erum orðnir góðir í körfubolta og ég held að fólk verði aðeins að átta sig á því. Miðað við þessa blessuðu höfðatölu, hvað við erum fá og með marga leikmenn eru að spila í íslensku deildinni. Það sýnir hvað hún er sterk og leikmennirnir eru að verða betri og við erum með fullt af töffurum í þessu liði.“

Horfa má á viðtalið við Martin í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×