Körfubolti

„Þetta er búið að vera eins og lífið er“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ægir Þór Steinarsson á ferðinni með boltann í leiknum í dag.
Ægir Þór Steinarsson á ferðinni með boltann í leiknum í dag. Vísir/Hulda Margrét

Ægir Þór Steinarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, vildi horfa fram hjá lokaleiknum á mótinu og frekar horfa til þess jákvæða hjá íslenska liðinu á mótinu.

„Ég held að það sé sniðugt að sleppa því að tala um þennan Frakkleik. Þeir voru eitthvað líkamlegt skrímsli sem við réðum ekkert við frá fyrstu mínútu. Mér fannst þetta samt vera skárra þegar leið á leikinn,“ sagði Ægir.

„Þú þarft að sýna ákveðna hæfileika og getu til þess að mæta þessu liði. Engar afsakanir en ég held að líkaminn okkar hafi ekki verið eins klár í þetta og þeirra,“ sagði Ægir.

Klippa: „Stundum bara stjórnar þú ekki öllu í þessu lífi“

Hvaða tilfinning situr eftir hjá Ægi eftir þetta Evrópumót?

„Svekkelsi því það er svo ógeðslega stutt á milli í íþróttunum. Ef við hefðum staðið okkur aðeins betur á móti Ísrael, klárað síðustu þrjár mínúturnar á móti Belgíu, fengið að klára leikinn á móti Póllandi og kannski stela sigri í einhverri stemmningu á móti Slóveníu. Þá værum við með fjóra sigra,“ sagði Ægir og brosti.

„Þetta kennir okkur það að þú þarft gríðarlega einbeitingu og gæði í gegnum svona mót. Heppni vissulega ef þú ætlar að ná í einn sigur. Þetta er enn lærdómur í það hversu sterkur hugarfarslega þú þarft að vera og hversu sterkur þú þarft að vera í endurheimt. Þetta eru margir leikir á fáum dögum,“ sagði Ægir.

„Enn einn lærdómurinn og ekkert neikvætt. Auðvitað svekkelsi en margt ógeðslega jákvætt en stundum bara stjórnar þú ekki öllu í þessu lífi,“ sagði Ægir.

Þetta mót er búið að vera mikill tilfinningarússíbani með alls konar svekkelsi af mismunandi ástæðum.

„Þetta er búið að vera algjört rugl. Eitthvert bland af því að maður er ógeðslega fúll, ógeðslega glaður og grenjandi þar á milli. Þetta er búið að vera geggjað og þetta er búið að vera eins og lífið er. Einhver lærdómur um það hvernig maður á að lifa lífinu. Það er svo stutt á milli í þessu,“ sagði Ægir.

„Ég er mjög ánægður með sjálfan mig og flesta okkar gaura. Vera í núinu og njóta þess, horfa upp í stúku og fá þennan kraft frá þessum fólki og öllum sem eru í kringum okkur. Þetta er búið að vera geggjaður lærdómum um lífið og leikinn,“ sagði Ægir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×