Innlent

Boða mann til landsins vegna líkams­á­rásar þegar hann var sex­tán ára

Árni Sæberg skrifar
Piltarnir eru sagðir hafa framið líkamsárásina á Akranesi.
Piltarnir eru sagðir hafa framið líkamsárásina á Akranesi. Vísir/Arnar

Héraðsdómur Vesturlands hefur kvatt mann til að koma fyrir dóm til að hlýða á ákæru fyrir líkamsárás sem hann framdi árið 2023, þegar hann var aðeins sextán ára gamall. Hann er búsettur á ótilgreindum stað í Evrópu.

Í fyrirkalli sem birt var í Lögbirtingablaðinu í dag segir að maðurinn sé kvaddur til að koma fyrir dóm, hlýða á ákæru, halda uppi vörnum og sæta dómi.

Sæki hann ekki þing, við þingfestingu máls eða á síðari stigum þess, megi hann búast við því að fjarvist hans verði metin til jafns við það að hann viðurkenni að hafa framið brot það sem hann er ákærður fyrir og dómur verði lagður á málið að honum fjarstöddum.

Tveir sextán ára réðust á þann þriðja

Í ákæru á hendur manninum og öðrum til segir að þeir séu ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á Akranesi árið 2023, þegar þeir voru báðir sextán ára. Þeir hafi í félagi veist með ofbeldi að sextán ára pilti.

Hann hafi tekið um háls piltsins að aftanverðu og hent honum í götuna og í kjölfarið hafi báðir veist að piltinum með ítrekuðum spörkum í líkama hans og höfuð þar sem hann lá í götunni. Þá hafi hinn árásarmaðurinn slegið brotaþola með krepptum hnefa í andlitið, allt með þeim afleiðingum að hann hlaut blóðnasir, þreyfieymsli yfir nefi, verk í mjóbaki og rispu með byrjandi gróanda hægra megin við lendhrygg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×