Fótbolti

Aserar náðu í mikil­vægt stig gegn Úkraínu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Emin Mahmudov, hetja heimamanna í dag, í baráttunni við Albert Guðmundsson á Laugardalsvelli fyrir skemmstu.
Emin Mahmudov, hetja heimamanna í dag, í baráttunni við Albert Guðmundsson á Laugardalsvelli fyrir skemmstu. MB Media/Getty Images

Eftir afhroðið á Laugardalsvelli náði Aserbaísjan í sterkt stig gegn Úkraínu í undankeppni HM karla í fótbolta sem fram fer á næsta ári.

Aserar fóru frá Íslandi með skottið á milli lappanna. Þjálfari þeirra, hinn portúgalski Fernando Santos fór hins vegar ekki með til Aserbaísjan þar sem hann var rekinn eftir leik. Virðist sú ákvörðun hafa gert mikið fyrir liðið sem náði í virkilega gott stig í dag.

Eftir markalausan fyrri hálfleik á Tofiq Bahramov-vellinum í Bakú voru það gestirnir sem komust yfir á 51. mínútu. Georgiy Sudakov, miðjumaður Benfica í Portúgal, með markið eftir undirbúning Oleksandr Zubkov, framherja Trabzonspor í Tyrklandi.

Heimamenn létu það ekki slá sig út af laginu og sóttu jöfnunarmarkið. Það kom af vítapunktinum á 72. mínútu þökk sé reynsluboltanum Emin Mahmudov, miðjumanni Neftçi Bakú.

Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur í Bakú 1-1. Það þýðir að bæði Aserbaísjan og Úkraína eru með eitt stig að loknum tveimur umferðum í D-riðli. Ísland og Frakkland, sem mætast síðar í kvöld í París, eru með þrjú stig sem stendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×