Erlent

Skipar strax nýjan for­sætis­ráð­herra

Samúel Karl Ólason skrifar
Sébastien Lecornu og Emmanuel Macron í síðasta mánuði.
Sébastien Lecornu og Emmanuel Macron í síðasta mánuði. EPA/MIGUEL MEDINA

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hefur strax skipað nýjan forsætisráðherra, einungis einum degi eftir að stjórnarmeirihlutinn á franska þinginu stóðst ekki vantrauststillögu. Nýi forsætisráðherrann er Sébastien Lecornu, varnarmálaráðherra í fráfarandi ríkisstjórn og bandamaður Macrons til langs tíma.

Þrátt fyrir tiltölulega ungan aldur hefur Lecornu starfað sem ráðherra í öllum ríkisstjórnum Frakklands frá árinu 2017. Hann var yngsti varnarmálaráðherra í sögu Frakklands.

Lecornu, sem er 39 ára gamall, stendur nú frammi fyrir því erfiða verkefni að mynda nýja ríkisstjórn en pólitískt þrátefli hefur einkennt franska þingið undanfarin ár. Má það að miklu leyti rekja til fjárhagserfiðleika franska ríkisins og deilna um aðhaldsaðgerðir og niðurskurð.

Sjá einnig: Þurfa að finna fimmta forsætisráðherrann á tveimur árum

Macron sjálfur sleit þingi í fyrra og boðaði til skyndikosninga sem reyndist mikill afleikur þar sem stjórnarandstaðan bætti við sig fylgi í kosningunum.

Lecornu tekur formlega við embættinu á morgun og verður þar með sjöundi forsætisráðherra Macrons, frá því hann varð forseti árið 2017 en sá fimmti frá árinu 2022. Hann mun þurfa að byrja á viðræðum við leiðtoga þingflokka á franska þinginu reyna að mynda nýja ríkisstjórn. Stærsti liðurinn í þeim viðræðum mun samkvæmt Le Monde snúast um ný fjárlög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×