Fótbolti

Endurkomusigur í ó­trú­legum sjö marka leik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Vasilije Adzic reyndist hetja Juventus.
Vasilije Adzic reyndist hetja Juventus. Valerio Pennicino/Getty Images

Juventus vann 4-3 sigur er liðið mætti Inter í ótrúlegum stórleik í ítölsku úrvalsdeildinni í kanttspyrnu í dag.

Lloyd Kelly kom heimamönnum í Juventus yfir strax á 14. mínútu leiksins áður en Hakan Calhanoglu jafnaði metin fyrir Inter stundarfjörðungi síðar.

Landi hans frá Tyrklandi, Kenan Yildiz, kom Juventus hins vegar yfir á nýjan leik á 38. mínútu og staðan því 2-1 í hálfleik.

Calhanoglou var svo aftur á ferðinni á 65. mínútu þegar hann jafnaði metin á nýjan leik fyrir Inter áður en Marcus Thuram kom liðinu yfir rétt rúmum tíu mínútum síðar.

Heimamenn gáfust þó ekki upp og hinn Thuram bróðirinn, Khephren Thuram, jafnaði metin fyrir Juventus þegar um sjö mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Það stefndi því allt í sannkallað stórmeistarajafntefli, en Vasilije Adzic tryggði Juventus hins vegar dramatískan 4-3 sigur með marki á þriðju mínútu uppbótartíma.

Juventus er því enn með fullt hús stiga eftir þrjár umgerðir og liðið trónir á toppi ítölsku deildarinnar. Inter hefur hins vegar ekki farið vel af stað og er aðeins með þrjú stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×