Erlent

Drónaárás á eina stærstu olíu­vinnslu Rúss­lands

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Olíuvinnslustöð Basjneft í Úfu.
Olíuvinnslustöð Basjneft í Úfu. Oil and Gas Refining

Úkraínumenn gerðu í dag flygildaárás á eina stærstu olíuvinnslustöð Rússlands. Haft er eftir rússneskum embættismönnum að eldur hafi kviknað út frá sprengingunni en að tjónið sé minniháttar.

Guardian greinir frá því að um ræði stærðar olíuvinnslustöð sem tilheyri rússneska olíufyrirtækinu Bashneft. Stöðin er í útjaðri borgarinnar Úfu undir Úralfjöllum, í um 1400 kílómetra fjarlægð frá víglínunni í austanverðri Úkraínu.

Af myndefni sem hefur verið dreift á samfélagsmiðlum má sjá að flygildinu hafi verið flogið upp að stöðinni og sprungið svo í loft upp. Eldur blossaði í kjölfarið en tjónið er sagt lítilsvægt.

„Í dag var gerð hryðjuverkaárás á vinnslustöð Bashneft með flygildum af flugvélagerð. Ekkert tjón varð á fólki. Vinnslustöðin varð fyrir lítilsháttar tjóni og eldur kviknaði, sem unnið er að því að slökkva,“ hefur Guardian eftir Radíj Khabírov, héraðsstjóra Basjkortostan þar sem Úfu er að finna.

Samkvæmt héraðsstjóranum var flygildið sem sprakk annað tveggja sem gerð voru út en hitt var skotið niður. Úkraínska leyniþjónustan hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×