Erlent

Rúss­nesk flygildi rufu loft­helgi NATO

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Árásarflygildi af gerðinni Shahed sem Rússar nota mikið. Myndin tengist ekki fréttinni beint.
Árásarflygildi af gerðinni Shahed sem Rússar nota mikið. Myndin tengist ekki fréttinni beint. AP

Rússnesk fylgildi rufu lofthelgi Rúmeníu í dag. Þau fóru að sögn úkraínskra stjórnvalda um það bil tíu kílómetra inn fyrir landamæri Rúmeníu og voru þar í um fimmtíu mínútur.

Vólódímír Selenskí forseti Úkraínu greindi frá þessu í færslu á samfélagsmiðlum í kvöld. Hann segir Rúmena hafa gert út herþotur til að bregðast en flygildið er sagt hafa horfið af ratsjám Rúmena áður en til kastanna kom. Varnarmálaráðuneyti Rúmeníu hefur staðfest að lofthelgi sín hafi verið rofin.

Herþotur í Póllandi voru einnig ræstar út fyrr í dag í svokallaðri forvarnaraðgerð vegna ógn sem þótti stafa af rússneskum flygildum sem notuð voru til árása í vesturhluta Úkraínu. Flugvöllinum í borginni Lublin í austanverðu Póllandi var lokað. Aukið hættustig var í gildi í um tvær klukkustundir.

„Rússneski herinn veit nákvæmlega hvert flygildi sín stefna og hve lengi þau eru virk í loftinu. Leiðir þeirra eru alltaf fyrirfram ákveðnar. Þetta getur ekki verið tilviljun, mistök, eða frumkvæði einhverra undirmanna. Þetta er augljós stigmönun stríðsins af hálfu Rússa,“ segir Selenskí í færslunni.

Hann segir þörf á virkum forvörnum. Engin ögrun frá Rússlandi sé lítilsvæg.

Rússar rufu lofthelgi Póllands á miðvikudaginn síðasta. Fjöldi flygilda svifu inn fyrir landamærin og eitt þeirra olli talsverðum skemmdum á íbúðarhúsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×