Sport

Ricky Hatton látinn

Sindri Sverrisson skrifar
Ricky Hatton hefur kvatt sviðið fyrir fullt og allt.
Ricky Hatton hefur kvatt sviðið fyrir fullt og allt. Getty/Alex Livesey

Breski hnefaleikakappinn Ricky Hatton, fyrrverandi heimsmeistari, er látinn aðeins 46 ára að aldri.

Hatton átti langan og farsælan feril í boxhringnum á árunum 1997-2012 og vann titla í léttveltivigt og veltivigt.

Hann tilkynnti í sumar að hann hygðist snúa aftur í hringinn 2. desember, þrettán árum eftir að ferlinum lauk, til þess að berjast við Eisa Al Dah.

Fyrir tveimur árum kom út heimildamynd frá Sky sem fjallaði um feril og líf Hattons og glímu hans við andleg veikindi.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni í Manchester í dag var lögreglan kölluð til á heimili í Tameside klukkan 6:45 í morgun, þar sem lík Hattons fannst. Ekkert bendir til þess að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti.

Til stóð að Hatton yrði á meðal áhorfenda á leik Manchester City og Manchester United í dag enda mikill stuðningsmaður City.

Klappað verður fyrir Hatton í eina mínútu áður en leikurinn hefst og munu leikmenn bera svört sorgarbönd.

Hatton lætur eftir sig þrjú börn; soninn Campbell og dæturnar Fearne Grace og Millie.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×