Skoðun

Erfðir og endurframleiðsla fé­lags­legra vanda­mála milli kyn­slóða

Halldóra Lillý Jóhannsdóttir skrifar

Ný rannsókn á samspili erfða og félagslegs hreyfanleika leiðir í ljós að áhrif erfða á menntun, tekjur og eignastöðu eru bæði sterk og viðvarandi yfir kynslóðir. Rannsóknin byggir á gögnum úr hollenska Lifelines Biobank og skattframtölum frá árunum 2006–2022, þar sem notast er við fjölgenavísitölu (e. polygenic index, PGI) fyrir menntun sem mælikvarða á erfðafræðilega tilhneigingu til námsárangurs.

Niðurstöðurnar sýna að börn hagnast bæði á beinum erfðum og á félagslegu umhverfi sem mótast af erfðum foreldra. Um helmingur áhrifa stafar af erfðaefni sem flyst beint til barnsins, en hinn helmingurinn felst í svokallaðri erfðaumönnun (genetic nurture), þ.e. að erfðir foreldra hafi áhrif á hegðun, menntun og tekjur þeirra sjálfra, sem aftur mótar félagslegt og efnahagslegt umhverfi barnsins Þessi óbeinu áhrif eru sérstaklega sýnileg þegar litið er til húsnæðismála, þar sem velstæðir foreldrar geta veitt börnum sínum fjárhagslega aðstoð og stuðlað þannig að efnahagslegum framgangi þeirra.

Áhrifin eru umtalsverð í tölfræðilegu samhengi, því að 10 prósentustiga hækkun í PGI foreldris, hækkar menntun barnsins að jafnaði um 0,11 ár og færir það um 0,7 sæti upp tekjudreifinguna. Þessar niðurstöður staðfesta að erfðir eru eitt af þeim öflum sem festa félags- og efnahagslega stöðu milli kynslóða –ekki einungis í gegnum líffræðilegan arf– heldur einnig með mótun félagslegs umhverfis sem sjálft byggist að hluta á erfðafræðilegum þáttum foreldra.

Rannsóknin dregur þannig fram mikilvæga ályktun fyrir stefnumótun: Erfðir eru ekki óumbreytanleg örlög. Í ljósi þess að stór hluti áhrifanna birtist í gegnum mótanlegt félagslegt umhverfi — svo sem menntakerfi, húsnæðisstefnu og aðgang að vinnumarkaði – geta stjórnvöld með markvissum aðgerðum dregið úr þeim hluta sem ella myndi erfast milli kynslóða.

Höfundur er lögfræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×