Enski boltinn

„Ef fé­lagið vill breyta um leik­stíl verður það að breyta um mann“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, er undir mikilli pressu.
Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, er undir mikilli pressu. epa/ADAM VAUGHAN

Ruben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, ætlar að halda áfram að spila 3-4-3 leikkerfið sitt þrátt fyrir að Rauðu djöflarnir hafi einungis unnið átta af 31 deildarleik undir hans stjórn.

United tapaði fyrir City í Manchester-slagnum í gær, 3-0, og er bara með fjögur stig í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Amorim er meðvitaður um slæma stöðu United og óánægju stuðningsmanna liðsins en hann hyggst ekki breyta um leikkerfi.

„Ég breyti ekki leikstílnum mínum. Ef þeir vilja breyta um leikstíl verða þeir að breyta um mann,“ sagði Amorim á blaðamannafundi eftir leikinn á Etihad í gær.

„Ég ætla ekki að breyta og spila minn leikstíl þar til ég vil breyta. Ég skil spurningarnar og þetta er ekki árangur sem þú átt að vera með hjá Manchester United. En margt hefur gerst síðustu mánuði sem þið hafið ekki hugmynd um.“

Amorim segir að spilamennska United sé betri en stigataflan gefur til kynna. Hann muni þó una ákvörðun stjórnarmanna United ef þeir ákveða að skipta um mann í brúnni. 

„Ég skil allt en ég er ekki tilbúinn að kvitta upp á það að við séum ekki að gera betur. Við erum að gera betur en úrslitin sýna það ekki og úrslitin segja allt. Ég skil það. Mín skilaboð eru þessi: Ég geri allt sem í mínu valdi stendur. Restin er ekki mín ákvörðun. Ég geri mitt besta. Ég þjáist meira en stuðningsmennirnir,“ sagði Amorim sem tók við United af Erik ten Hag í nóvember í fyrra.

Í 31 deildarleik undir stjórn Amorims hefur United aðeins náð í 31 stig, eða eitt stig að meðaltali í leik. Liðinu hefur mistekist að skora í þrettán af þessum 31 deildarleik.

Næsti leikur United er gegn Chelsea á Old Trafford á laugardaginn kemur.


Tengdar fréttir

Tvö frá Haaland og Manchester er blá

Eftir tvö töp í röð er Manchester City komið aftur á sigurbraut eftir öruggan 3-0 sigur gegn Manchester United í stórleik og nágrannaslag liðanna í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×