Erlent

Ís­lendingur dæmdur í þrettán ára fangelsi í Rúss­landi

Samúel Karl Ólason skrifar
Masha Alekhina á sviði í Sviss árið 2022. Hún fékk íslenskan ríkisborgararétt í maí 2023.
Masha Alekhina á sviði í Sviss árið 2022. Hún fékk íslenskan ríkisborgararétt í maí 2023. EPA/GEORGIOS KEFALAS

Rússneskur dómstóll hefur dæmt nokkra meðlimi listahópsins Pussy Riot til langrar fangelsisvistar fyrir að vanvirða rússneska herinn. Þar á meðal er Mariia Alekhina, eða Masha, sem er íslenskur ríkisborgari. Fimm konur voru dæmdar í morgun en engin þeirra er í Rússlandi.

Auk Möshu voru einnig dæmdar þær Taso Pletner, Diana Burkot, Alina Petrova og Olga Borisova.

Masha var dæmd til þrettán ára vistar í fanganýlendu. Pletner fékk ellefu ára dóm en Burkot Petrova og Borisova fengu átta ára dóm. Þær mega einnig samkvæmt dómnum ekki stýra netsíðum í fjögur til fimm ár, samkvæmt frétt RIA fréttaveitunnar, sem er í eigu rússneska ríkisins.

Þessar fjórar konur úr Pussy Riot voru dæmdar til fangelsisvistar í Rússlandi í morgun. Frá vinstri: Olga Borisova,  Masha Alekhina,Diana Burkot og Taso Pletner. Á myndina vantar Alinu Petrova.Vísir/Ívar

Þær voru ákærðar vegna tónlistarmyndbands sem þær gáfu út í desember 2022, þar sem þær gagnrýndu innrás Rússa í Úkraínu og ódæði rússneskra hermanna þar. Einnig voru Alekhina, Pletnar og Petrova ákærðar fyrir að segja ósatt um árásir rússneskra hermanna á Maríupól þegar þær voru á mótmælum í Þýskalandi í apríl 2024.

Sjá einnig: Býr á Ís­landi en dæmd í sex ára fangelsi í Rúss­landi

Masha og tveir aðrir meðlimir Pussy Riot voru árið 2012 dæmdar í fangelsi í Rússlandi fyrir að trufla messu í Kristskirkjunni í Moskvu og þekkir hún hvernig það er að sitja inn þar í landi.

„Fangelsiskerfið er mjög slæmt. Það er verra en gúlagið. Þarna er stundað þrælahald og fangar eru látnir vinna án launa. Fangarnir fá þrjár evrur á mánuði fyrir tólf tíma vinnudag og það er allt og sumt,“ sagði hún í viðtali við Vísi árið 2023.

Mikið notuð lög

Frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst hefur lögum sem ætlað er að verja herinn gegn smánun og vanvirðingu ítrekað verið beitt til að dæma fólk til langrar fangelsisvistar í Rússlandi. Þeirra á meðal er Oleg Orlov, einn fremsti mannréttindafrömuður Rússlands.

Sjá einnig: Aldraður barna­læknir dæmdur í fangelsi fyrir að van­virða herinn

Lögunum hefur ítrekað verið beitt gegn mannréttinda- og félagasamtökum í Rússlandi, og þar að auki gegn sjálfstæðum fjölmiðlum.

Moscow Times sagði frá því í vor að eftir að konurnar fimm sem dæmdar voru í morgun voru ákærðar hafi lögregluþjónar gert húsleit á heimilum ættingja þeirra. Meðal annars hefðu lögregluþjónar leitað á heimilum foreldra nokkurra þeirra og tekið síma og önnur raftæki til skoðunar.


Tengdar fréttir

Al­þingi sam­þykkti ríkis­borgara­rétt Pus­sy Riot-liða

Allir viðstaddir þingmenn greiddu atkvæði með því að átján útlendingar fengju íslenskan ríkisborgararétt í dag. Í hópnum eru tvær liðskonur rússneska lista- og andófshópsins Pussy Riot sem flúðu kúgun í heimalandinu í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×