Körfubolti

Tryggvi varði flest skot á EM og tók næst­flest frá­köst

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Frammistaða Tryggva Snæs Hlinasonar á EM í körfubolta vakti mikla athygli.
Frammistaða Tryggva Snæs Hlinasonar á EM í körfubolta vakti mikla athygli. vísir/hulda margrét

Miðherji íslenska körfuboltalandsliðsins, Tryggvi Snær Hlinason, spilaði frábærlega á nýafstöðnu Evrópumóti. Hann var ofarlega á mörgum tölfræðilistum mótsins.

Tryggvi var besti leikmaður íslenska liðsins á EM sem lauk um helgina. Íslendingar töpuðu öllum fimm leikjunum sínum á mótinu en stjarna Tryggva skein skært.

Í leikjunum fimm varði Tryggvi að meðaltali 2,4 skot, flest allra á EM. Næstur kom Georgíumaðurinn Goga Bitadze með 1,8 varin skot að meðaltali í leik.

Tryggvi var einn fjögurra leikmanna á EM sem voru með fjórar tvennur; það er með tíu eða meira í tveimur tölfræðiþáttum. Tryggvi var með að minnsta kosti tíu stig og að minnsta kosti tíu fráköst í fyrstu fjórum leikjum Íslands á EM. Hinir leikmennirnir sem náðu fjórum tvennum spila allir í NBA og eru þekktar stærðir: Nikola Vucevic, Alperen Sengün og Giannis Antetokounmpo.

Tryggvi var með bestu skotnýtinguna inni í teig á EM ásamt serbnesku ofurstjörnunni Nikola Jokic. Þeir hittu báðir úr 75 prósent skota sinna innan teigs.

Aðeins Svartfellingurinn Vucevic tók fleiri fráköst að meðaltali í leik á EM en Tryggvi, eða 11,6 fráköst. Tryggvi tók 10,6 fráköst að meðaltali í leik.

Þá var Tryggvi í 6. sæti á listanum yfir þá leikmenn sem voru með flest framlagsstig að meðaltali í leik. Hinir eru allir NBA-stjörnur; Luka Doncic, Giannis, Jokic, Sengün og Vucevic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×