Fótbolti

Sungu UEFA Mafia og Breiða­blik fékk 1,4 milljóna króna sekt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Breiðabliks fóru yfir strikið að mati UEFA með söngvum sínum.
Stuðningsmenn Breiðabliks fóru yfir strikið að mati UEFA með söngvum sínum. vísir/Diego

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, sektaði Breiðablik um rúmlega 1,4 milljónir króna vegna óviðeigandi söngva stuðningsmannasveitarinnar Kópacabana.

Fótbolti.net greinir frá. Í samtali við vefsíðuna segir Hilmar Jökull Stefánsson úr Kópacabana að meðlimir sveitarinnar hafi sungið UEFA Mafia í leik gegn Zrinjski Mostar.

„Ég vona náttúrulega að þessari ákvörðun verði hnekkt. Mér finnst algjört rugl að sekta félagið fyrir saklaust grín. Ég veit alveg að UEFA eru engin glæpasamtök og söngurinn var ekki sunginn í þannig meiningu heldur í gríni til að mótmæla einhverjum ómerkilegum ákvörðunum dómarans,“ sagði Hilmar við Fótbolta.net.

Að mati UEFA voru söngvar Kópacabana óviðeigandi og Breiðablik fékk sekt sem nemur tíu þúsund evrum. Það jafngildir rúmlega 1,4 milljón íslenskra króna.

Breiðablik tapaði leiknum gegn Zrinjski Mostar, 1-2, í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar. Breiðablik fór í kjölfarið í umspil um sæti í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar þar sem liðið vann Virtus frá San Marinó, 5-2 samanlagt.

Breiðablik tekur því þátt í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar. Í fyrsta leik sínum þar mætir liðið Lausenne-Sport frá Sviss á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×