Viðskipti innlent

SVEIT sleppi ekki við milljónasektir

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins og Einar Bárðarson framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT). Einar er framkvæmdastjóri hjá SVEIT.
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins og Einar Bárðarson framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT). Einar er framkvæmdastjóri hjá SVEIT. Vísir/Arnar/Vilhelm

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur staðfest að dagsektir upp á milljón krónur skuli leggjast á Samtök fyrirtækja í veitingarekstri (SVEIT) ef félagið afhendir Samkeppniseftirlitinu ekki gögn í seinasta lagi 6. október. Gögnin snúa að rannsókn á meintum samkeppnisbrotum.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Samkeppnisefitrlitsins. Það var þann 11. júní sem Samkeppniseftirlitið tók ákvörðun um að leggja dagsektir á SVEIT vegna brota samtakanna á lagaskyldu til þess að afhenda eftirlitinu gögn. Samtökin höfðu haldið því fram að málið ætti ekki heima á borði efirlitsins.

Málið snýr að því að í mars síðastliðnum hafi Samkeppniseftirlitinu borist kvörtun frá Alþýðusambandi Íslands, Eflingu og Starfsgreinasambandi Íslands vegna „ólögmæts verðsamráðs fyrirtækja á veitingamarkaði og ólögmæts verðsamráðs innan Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði“. Var því haldið fram að gerð SVEIT á einhliða kjarasamningi við félagið Virðingu, þar sem kveðið væri á um launakjör á veitingamarkaði, hafi farið gegn samkeppnislögum.

„Í kvörtuninni er rökstutt að félagið Virðing sé „gervistéttarfélag“ og jafnframt að undanþága 2. mgr. 2. gr. samkeppnislaga frá gildissviði laganna vegna „launa eða annarra starfskjara launþega samkvæmt kjarasamningum“ eigi ekki við.

Samkeppniseftirlitið ákvað að hefja rannsókn og óskaði eftir gögnum frá SVEIT, tilteknum aðildarfyrirtækjum SVEIT og Virðingu. Gögn hafa borist frá Virðingu og aðildarfyrirtækjum SVEIT sem gagnabeiðni var beint til.

SVEIT kærði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Byggði SVEIT á því að Samkeppniseftirlitið hefði ekki heimild til þess að rannsaka ætluð samráðsbrot og að gagnabeiðni eftirlitsins hefði verið of umfangsmikil.

„Með úrskurði sínum í dag staðfesti áfrýjunarnefnd hins vegar ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Skal SVEIT greiða dagsektir að fjárhæð 1.000.000 kr. á dag ef gögnin hafa ekki borist Samkeppniseftirlitinu fyrir 6. október nk,“ segir á vef eftirlitsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×