Viðskipti innlent

Úr geimskipaútgerð til Faxaflóahafna

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldar Ástþórsson, nýr markaðsstjóri Faxaflóahafna.
Eldar Ástþórsson, nýr markaðsstjóri Faxaflóahafna.

Eldar Ástþórsson hefur verið ráðinn markaðsstjóri Faxaflóahafna en þangað fór hann frá CCP. Þar starfaði Eldar að kynningar- og markaðsmálum í yfir áratug og síðustu ár sem aðal vörumerkjastjóri. Hann hefur þar að auki leitt markaðs- og kynningarstörf hjá Iceland Airwavex, nýsköpunarfyrirtækinu Gogoyoko og Forlaginu.

„Hafnir eru drifkraftur mannlífs, menningar og viðskipta - og ég hlakka til að taka þátt í þeim áskorunum sem eru framundan hjá Faxaflóahöfnum. Ný farþegamiðstöð á Skarfabakka opnar í vor nýja gátt erlendra ferðamanna að höfuðborginni með tilheyrandi tækifærum fyrir íslenska ferðaþjónustu. Áhersla Faxaflóahafna á nýsköpun, skilvirkni og áframhaldandi rafvæðingu hafna verður í aðalhlutverki við sköpun nýrra viðskiptatækifæra og við að mæta áfram fjölbreyttum þörfum samfélagsins, umhvefisins og atvinnulífsins,” segir Eldar Ástþórsson í tilkynningu.

Þar kemur einnig fram að Eldar er með diplómu í samskiptum og stafrænni miðlun frá Academia í Gautaborg og meistaragráðu í viðskiptastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík.

Faxaflóahafnir reka umfangsmestu hafnir landsins á starfsvæðum sínum í Reykjavík, Akranesi, á Grundartanga og í Borgarnesi. Félagið tengir stærsta markaðs- og atvinnusvæði Íslands við umheiminn og miðin með öruggum, grænum og skilvirkum höfnum. Um 80 manns starfa hjá fyrirtækinu sem leggur áherslu á að vera leiðandi í umhverfis- og öryggismálum og er í vegferð að þróa snjallar og sjálfbærar hafnir framtíðarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×