Enski boltinn

„Ég væri dáinn ef hún væri ekki hér“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Coleen og Wayne Rooney hafa upplifað ýmislegt saman. 
Coleen og Wayne Rooney hafa upplifað ýmislegt saman.  JMEnternational/Getty Images)

Wayne Rooney þakkar konu sinni Coleen fyrir það að vera á lífi í dag. Án hennar hefði hann drukkið sig til dauða.

Manchester United goðsögnin og fyrrum fyrirliði enska landsliðsins í fótbolta sagði frá áfengisvandamálum sínum í hlaðvarpi Rio Ferdinand í gær.

„Ég trúi því raunverulega að ég væri dáinn ef hún væri ekki hér“ sagði Rooney og hélt áfram.

„Hún heldur mér á beinu brautinni og hefur gert það í einhverja tvo áratugi. Ég vildi alltaf fara út og njóta lífsins með vinum mínum en var kominn á þann stað að geta ekki stoppað...

Coleen og Wayne hafa verið saman lengi en þau giftu sig árið 2008.vísir/getty

...Ég glímdi við mikil áfengisvandamál en fannst ég ekki geta leitað til neins, ég vildi ekki vera íþyngjandi.

Ég drakk í tvo daga án þess að stoppa, fór svo á æfingu og spilaði um helgina, skoraði tvö mörk og hélt svo áfram að drekka næstu tvo daga á eftir.

Hún hjálpaði mér að ná stjórn á þessu og hún hafði stjórn á mér þegar ég þurfti á því að halda.“

Ekki alkóhólisti en drakk í óhófi

Rooney hefur áður talað opinskátt um áfengisvandamál sín, sem hann vill ekki lýsa sem alkóhólisma.

„Ég var aldrei alkóhólisti en þegar ég gat þá drakk ég í óhófi. Ef ég fékk tveggja daga frí þá drakk ég í tvo daga. Svo lét ég renna af mér, setti í mig augndropa, fékk mér tyggjó eða munnskol og mætti í vinnuna þar sem ég þurfti að hlaupa út um allt og æfa af krafti“ sagði Rooney við breska ríkisútvarpið fyrir þremur árum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×