Innlent

„Skoðun mín skiptir ekki máli“

Árni Sæberg skrifar
Eyjólfur Ármannsson er innviðaráðherra.
Eyjólfur Ármannsson er innviðaráðherra. Vísir/Vilhelm

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra segir skoðun sína varðandi bókun 35 ekki skipta máli þegar búið verður að innleiða hana með lögum. Þingmaður Sjálfstæðisflokks þráspurði hann út í afstöðu hans gagnvart málinu en hann hefur ítrekað lýst því yfir að innleiðing bókunar 35 yrði stjórnarskrárbrot.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og félags- og húsnæðismálaráðherra, greindi frá því á dögunum að afstaða hennar gagnvart bókun 35 hefði breyst, eftir að hún hefði rætt málið við sérfræðinga við stjórnarmyndun.

Samkomulag er milli ríkisstjórnarflokkanna um samþykkt frumvarps um innleiðingu bókunar 35, sem hefur lengi verið deilt um. Bókun 35 gengur út á að ef lagasetning sem byggir á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og önnur lög stangast á þá gildi þau fyrri, nema þá ef Alþingi hafi tekið skýrt fram að svo sé ekki. Andstæðingar bókunar hafa í þessu samhengi talað um fullveldisafsal á meðan stuðningsmenn telja frumvarpið tryggja samræmi í lögum og að almenningur njóti þá þess réttar sem kveðið er á um í EES-samningnum.

Opinskár um andstöðu sína við bókunina

Guðlaugur Þór Þórðarson nýtti tækifærið í óundirbúnum fyrirspurnartíma í upphafi þingfundar í morgun og spurði Eyjólf Ármannsson, innviðaráðherra og þingmann Flokks fólksins, út í afstöðu hans til sama máls. Eyjólfur hefur í gegnum tíðina verið meðal háværustu andstæðinga bókunar 35 og meðal annars sagt innleiðingu hennar myndu fela í sér stjórnarskrárbrot.

„Í ljósi nýlegrar kúvendingar hæstvirts félags- og húsnæðismálaráðherra í málinu tel ég tilefni til að spyrja hæstvirtan ráðherra hvort hann hafi einnig séð sama ljós og kollegi sinn í ríkisstjórn og formaður hans flokks. Hvort hann telji enn þá að frumvarpið um bókun og sé stjórnarskrárbrot, og ef hann telur frumvarpið enn þá brjóta gegn stjórnarskrá, hyggst hann greiða atkvæði með málinu?“ spurði Guðlaugur Þór.

„Þá bara kemur það í ljós“

Eyjólfur byrjaði svar sitt á því að ítreka stuðning sinn við ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur og stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna þriggja.

Þá rakti hann að í greinargerð með frumvarpi um bókun 35 segi að þriðja grein EES-laganna hafi verið með það að markmiði að innleiða skuldbindingar samkvæmt bókun 35. Íslandi hafi gengið vel í EES-samstarfinu og hann styðji það samstarfsarf heilshugar. Hann hafi verið þeirrar skoðunar að EFTA dómstóllinn ætti að útkljá í samningsbrotamáli ágreining um hvort þriðja grein EES-laganna væri fullnægjandi til að tryggja einsleitni á EES-svæðinu.

„Málið mun nú, ef frumvarpið verður samþykkt um bókun 35, fara fyrir Hæstarétt og það er Hæstiréttur Íslands sem kveður á um það hvort íslensk lög brjóti stjórnarskrána, þannig er það, ekki einstaka þingmenn.“

Hann sagðist bera mikla virðingu fyrir Hæstarétti Íslands og treysta niðurstöðum hans um það hvað séu rétt lög í landinu.

„Sannfæring mín liggur með stefnumálum Flokks fólksins og sannfæring mín liggur líka með stefnumálum ríkisstjórnarflokkanna. Klárlega tel að sé mikilvægt að við náum markmið okkur hvað það varðar. Ég samþykkti málið út úr ríkisstjórn á sínum tíma og samþykkti það líka til þingflokka. Varðandi atkvæðagreiðsluna, þá bara kemur það í ljós. Ég mun greiða atkvæði þegar þar að kemur en ég mun styðja málið.“

Ráðherrar hleypi ekki málum í gegn sem þeir telja brjóta gegn stjórnarskrá

Guðlaugur Þór steig í ræðustól öðru sinni og furðaði sig á þessum orðum ráðherra og spurði hvernig það færi saman að ráðherra styddi mál en segði það myndu koma í ljós hvernig hann myndi greiða atkvæði.

„Við undirritum drengskaparheit um að virða stjórnarskrána. Hæstvirtur ráðherra fór fyrir kosningar og hans flokkur og sagði: Við erum ekki að fara að samþykkja þetta af því að þetta er stjórnarskrárbrot. Þetta er stjórnarskrárbrot. Það er ekki þannig, nema þetta séu nýju vinnubrögð ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur, að hér hleypa ráðherrar frumvörpum í gegn, sem þeir telja að brjóti gegn stjórnarskrá og ætla svo að láta Hæstarétt kveða á um. Virðulegur forseti, er ráðherra alvara?“

Forseti skarst í leikinn

Að lokinni annarri ræðu Guðlaugs Þórs minnti forseti þingsins á að ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnatíma er tvær mínútur. Eyjólfur steig þá í ræðustól og ítrekaði að hann hefði samþykkt málið úr ríkisstjórn á sínum tíma.

„Það er líka alveg kristaltært að málið mun nánast líklega örugglega fara fyrir Hæstarétt Íslands og það verður Hæstiréttur Íslands sem kveður upp um það hvort þetta frumvarp brjóti stjórnarskrána, ekki einstaka þingmenn. Það er grundvallaratriði,“ sagði hann.

„Hver er skoðun ráðherra?“ heyrðist þá kallað úr þingsal, að öllum líkindum af Guðlaugi Þór.

„Ég skal útskýra skoðun mína aftur. Það vita allir af þessu þessu vandamáli varðandi einsleitni á innri markaði EES. Þetta mál var leyst á sínum tíma með þriðju grein laga um EES-svæðið. Það var gert og það var það breitt ákvæði að það var talið innifela bókun 35. Svo hefur ekki sýnt sig, meðal annars í máli Harðar Einarssonar og fleiri málum, þar sem Hæstiréttur hefur þrengt þriðju greinina.“

Guðlaugur Þór ítrekaði þá fyrirspurn sína um skoðun ráðherra á innleiðingu bókunar 35. Forseti minnti þingmenn þá á að gefa ræðumanni hljóð.

„Skoðun mín er sú að ég styð þetta mál og ég samþykkti það úr ríkisstjórn og samþykkti það úr þingflokknum. Ég taldi rétt að þetta mál færi fyrir EFTA-dómstólinn, ekki fyrir Hæstarétt Íslands. Núna mun það ekki fari fyrir EFTA-dómstólinn, verði frumvarpið samþykkt, heldur mun það fara fyrir Hæstarétt Íslands og það er Hæstiréttur Íslands sem kveður á um það.“

„Skoðun!“ heyrðist enn kallað úr þingsal.

„Skoðun mín skiptir ekki máli í þessu máli þegar búið er að samþykkja lög,“ sagði Eyjólfur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×