Handbolti

Flautumark í Breið­holti

Valur Páll Eiríksson skrifar
Mosfellingar gátu fagnað í kvöld.
Mosfellingar gátu fagnað í kvöld. Vísir/Jón Gautur

Afturelding vann 37-36 sigur á ÍR er liðin áttust við í Olís-deild karla í Breiðholti í kvöld. Sigurmarkið skoruðu gestirnir á lokasekúndu leiksins.

Mikið stuð var í Breiðholtinu í kvöld þar sem spennan var töluverð og mikið skorað. Afturelding byrjaði umtalsvert betur þar sem liðið skoraði fyrstu fjögur mörk leiksins og staðan 10-3 þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður.

Munurinn varð mest átta mörk en þegar hálfleiksflautið gall stóð 21-15 fyrir Aftureldingu. ÍR-ingar tóku við sér eftir hlé á meðan Mosfellingar voru á hælunum.

ÍR saxaði jafnt og þétt á forskotið og tókst loks að jafna í 32-32 þegar rúmlega sex mínútur lifðu leiks. Í kjölfarið komst ÍR yfir í fyrsta sinn, 33-32, en Afturelding svaraði og komst 36-34 yfir þegar 90 sekúndur voru eftir.

ÍR svaraði með tveimur mörkum og aðeins 15 sekúndur voru eftir þegar Jökull Blöndal Björnsson jafnaði. Gestirnir höfðu engin leikhlé og geystust upp. Ágúst Ingi Óskarsson skoraði sigurmarkið þegar sekúnda var eftir og tryggði Aftureldingu dramatískan sigur, 37-36.

Ihor Kopyshynskyi var markahæstur Aftureldingar með átta mörk en Árni Bragi Eyjólfsson skoraði sjö. Bernard Kristján Owusu Darkoh skoraði tíu fyrir ÍR en Jökull Blöndal níu.

Afturelding er með fullt hús á toppi deildarinnar eftir fjóra leiki en ÍR með eitt stig í ellefta sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×