Fótbolti

Villa vann loksins en Watkins rúinn sjálfs­trausti

Valur Páll Eiríksson skrifar
John McGinn skoraði sigurmark Villa.
John McGinn skoraði sigurmark Villa. EPA/TIM KEETON

Aston Villa vann fyrsta sigur liðsins á leiktíðinni, með herkjum þó, er Bologna heimsótti Villa Park í Evrópudeildinni. Sjö leikir fóru fram í keppninni í kvöld.

Skotinn John McGinn kom Aston Villa yfir snemma leiks og dugði það Villa fyrir sigrinum. Ollie Watkins, sem hefur enn ekki skorað fyrir Villa-lið sem hefur gengið agalega fram á við það sem af er leiktíð, fékk tækifæri til að tvöfalda forystuna af vítapunktinum seint í leiknum en slök spyrna hans var varin.

Sjá mátti hversu rúinn sjálfstrausti enski framherjinn er. Watkins hefur ekki skorað í átta leikjum í röð með Villa.

Lyon vann 1-0 sigur á Utrecht í Hollandi þökk sé marki varamannsins Tanner Tessmann og Genk vann 1-0 útisigur á heillum horfnu liði Rangers í Glasgow.

Sverrir Ingi Ingason og félagar í Panathinaikos frá Grikklandi unnu 4-1 sigur á Young Boys í Sviss í markaleik kvöldsins, Stuttgart vann 2-1 sigur á Celta Vigo frá Spáni og þá gerðu Salzburg og Porto markalaust jafntefli í Austurríki.

Glaðst var í Ungverjalandi þegar Ferencvaros tryggði sér stig með jöfnunarmarki í blálok uppbótartíma. 1-1 jafntefli við Viktoria Plzen frá Tékklandi þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×