Erlent

Mafíósar dæmdir til dauða

Bjarki Sigurðsson skrifar
Úr spilavíti í Kambódíu. Þar sem veðmálastarfsemi er ólögleg í Kína hafa Kínverjar reglulega reynt að koma á laggirnar spilavítum í nágrannalöndum. Glæpamenn nota þau stundum til peningaþvættis.
Úr spilavíti í Kambódíu. Þar sem veðmálastarfsemi er ólögleg í Kína hafa Kínverjar reglulega reynt að koma á laggirnar spilavítum í nágrannalöndum. Glæpamenn nota þau stundum til peningaþvættis. Getty/Paula Bronstein

Ellefu meðlimir hinnar kínversku Ming-fjölskyldu hafa verið dæmdir til dauða í heimalandinu. 28 aðrir fjölskyldumeðlimir hlutu vægari dóma en fjölskyldan framdi ýmsa glæpi í gegnum samtök sín í Mjanmar, skammt frá landamærunum við Kína. 

Ming-fjölskyldan er sögð ein af mafíósafjölskyldum Kína. Frá 2015 hafði fjölskyldan, í slagtogi við aðra glæpahópa, starfrækt ólögleg spilavíti í Mjanmar, smyglað eiturlyfjum yfir landamærin og stundað sölu vændis. Í frétt BBC segir að fjölskyldan hafi með þessu hagnast um tíu milljarða kínverskra júana, tæplega 170 milljarða íslenskra króna. 

Þá hafi fjölskyldan neytt þúsundir manna til að starfa í símaverum sem voru starfrækt til að svindla á fólki. Talið er að fjölskyldan hafi í gegnum þessi símaver svikið háar fjárhæðir frá grunlausu fólki.

Meðlimir fjölskyldunnar voru handteknir í Mjanmar fyrir tveimur árum í stórri aðgerð hernaðarliðs sem er sagt tengjast kínverskum stjórnvöldum. Veðmálastarfsemi er ólögleg í Kína og hafa stjórnvöld lengi reynt að ná tökum á þeirri starfsemi, sem og rekstri þessara símavera. Kínverskir glæpamenn reka þau alla jafna í öðrum ríkjum, nálægt landamærum Kína, svo sem Kambódíu og Mjanmar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×