Skoðun

Slæm inni­vist skerðir af­köst og hækkar kostnað

Ingibjörg Magnúsdóttir skrifar

Við tölum gjarnan um mannauð eins og hann sé töflureiknir, hæfni inn, afköst út. En fólk vinnur ekki í tómarúmi. Það andar, hugsar, lærir og lifir í raunverulegu rými – með lofti, birtu, hljóði, hita og raka þ.e. þáttum innivistar sem annaðhvort styðja okkur eða hamla. Ef við lítum á mannauð sem fjárfestingu, er eðlilegt að huga að umhverfinu sem ver fjárfestinguna. Áhrifin af góðri innivistin eru líka mælanleg en sem dæmi þá getur aukinn loftflæðishraði skilað um 1–3% bættri frammistöðu. Af hverju skiptir þetta máli rekstrarlega? 1–3% meðalbót á frammistöðu dag eftir dag, þegar lagt er saman yfir heilt teymi, getur orðið umtalsverður ávinningur miðað við launakostnað og tekjur.

Við þekkjum þetta öll skýrari haus þegar loftið er ferskt, meiri þolinmæði þegar hitinn er jafnstilltur og sveigjanlegri hugsun í birtu sem líkir eftir deginum. Þegar rýmið vinnur gegn okkur skríður þreyta inn síðdegis, höfuðverkur lætur á sér kræla eftir fundahring og einbeitingin gufar upp í lokuðu rými. Augun þreytast, hálsinn þornar, nefið þyngist þegar loftið er þétt; hitinn hnikast, ljós flöktir og bakgrunnshljóð krefst athygli. Áður en varir fer orkan meira í að mæta aðstæðum en verkefnum.

Fyrirtæki fjárfesta í fólki, ráða, kenna, leiða og hvetja. Sú fjárfesting bætist við hæfni sem einstaklingar hafa safnað í gegnum nám, vinnu og lífið. Raunávöxtunin ræðst þó líka af rýminu sjálfu. Öflug teymi blómstra í rýmum sem styðja vinnuna, gott loftflæði, eðlilegt rakastig, skýr hljóðvist og góð lýsing. Þar verða fundir styttri og skýrari, skapandi vinna hraðari og dagurinn endar síður í orkuskorti.

Góð innivist er ekki aukahlutur heldur er hún innviður. Við erum vön að tala um netkerfi, tölvubúnað og öryggi gagna sem innviði fyrirtækja, innivist er líka innviðamál. Hún hefur bein áhrif á heilsu, vellíðan og frammistöðu dag eftir dag og þar með nýtingu starfsfólks.

Kannski er það kjarni spurninganna hér að ofan:

  • Getur mannauðurinn skilað sínu besta ef rýmið vinnur á móti?
  • Hvert á starfsfólk að leita þegar einkenni vegna slæmrar innivistar gera vart við sig?
  • Á mannauðsstjórinn að tryggja að innivistin sé í lagi – eða hvar liggur sú ábyrgð?
  • Hvað kostar 1-3% bætt frammistaða í þínum rekstri?

Við lifum á tímum harðrar samkeppni um hæfileikaríkt starfsfólk. Eftir því sem blanda hæfni og velferðar ræður meira um afköst, þeim mun meira vegur aðbúnaðurinn á vinnustað. Góð innivist er ekki lúxus; hún er margfeldisstuðullinn sem lætur mannauð bera ávöxt – leiðin til að hámarka afkastagetu, nýtingu og raunafköst án þess að brenna fólk út.

Höfundur er mannfræðingur (MA) með viðbótardiplómu á framhaldsstigi í lýðheilsuvísindum og hagnýtri jafnréttisfræði og starfar sem viðskiptastjóri hjá Lotu verkfræðistofu.




Skoðun

Sjá meira


×