Erlent

Við­ræður um frið á Gasa hefjast í dag

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Fjölskyldur gíslanna sem enn eru í haldi Hamas á Gasa leggja hart að Trump Bandaríkjaforseta að hann bindi enda á stríðið. 
Fjölskyldur gíslanna sem enn eru í haldi Hamas á Gasa leggja hart að Trump Bandaríkjaforseta að hann bindi enda á stríðið.  Photo by Chris McGrath/Getty Images

Óbeinar viðræður um frið á Gasa svæðinu hefjast milli Hamas samtakanna og Ísraela í Kaíró höfuðborg Egyptalands í dag.

Viðræðunum er ætlað að útfæra friðaráætlunina sem Donald Trump forseti Bandaríkjanna kynnti á dögunum. Hamas hafa þegar samþykkt nokkur atriði í áætluninni, þar á meðal að sleppa öllum gíslum úr haldi, en önnur standa enn út af borðinu.

Hamas-liðinn Khalil al-Hayya fer fyrir samninganefnd þeirra sem vekur athygli, en hann er einn þeirra sem Ísraelar reyndu að ráða af dögum í Katar fyrir nokkru.

Trump forseti skrifaði á samfélagsmiðil sinn í nótt að nú verði allir að vinna hratt. Þá segir forsetinn að sér hafi verið sagt að fyrsta hluta viðræðna gæti lokið strax í þessari viku. Þrátt fyrir að skriður sé að komast á viðræður milli stríðandi fylkinga á Gaza hafa Ísraelar haldið hernaði sínum áfram og segir breska ríkiútvarpið að tuttugu og fjórir hafi fallið síðasta sólarhringinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×