Innlent

Rúða brotin og flug­eld kastað inn

Samúel Karl Ólason skrifar
4R_02738
Vísir/Ívar Fannar

Lítill eldur kviknaði í húsi á höfuðborgarsvæðinu í dag þegar rúða á hurð þar var brotin og flugeldi kastað inn. Óskað var eftir aðstoð lögreglu en búið var að slökkva eldinn þegar lögregluþjóna bar að garði.

Í dagbók lögreglu, þar sem sagt er frá þessu, kemur ekki fram hvar þetta var að öðru leyti en að þetta var á svæði lögreglustöðvar 3, sem sér um Kópavog og Breiðholt. Frá klukkan fimm í morgun til fimm í dag voru 46 mál bókuð í kerfi lögreglu og fjórir gistu í fangaklefa.

Lögregluþjónum á stöð 4, sem sér um Grafarvog, Mosfellsbæ og Árbæ, barst í dag ósk um aðstoð íbúum húss sem maður var að berja að utan. Maðurinn var handtekinn skömmu síðar en hann ku hafa verið í annarlegu ástandi.

Sama stöð fékk einnig tilkynningu um innbrot í íbúðarhús og þjófnað í verslun.

Lögreglunni barst einnig í dag beiðni um aðstoð vegna manns sem var í annarlegu ástandi á heilbrigðisstofnun. Hann var aðstoðaður og honum ekið á aðra heilbrigðisstofnun þar sem hann ku hafa getað fengið viðeigandi aðstoð.

Einn var svo stöðvaður í umferðinni vegna gruns um að hann væri að aka undir áhrifum fíkniefna. Við skoðun kom í ljós að hann hafði þar að auki ekki ökuréttindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×