Erlent

Súdanskur upp­reisnar­leið­togi sak­felldur fyrir stríðs­glæpi

Atli Ísleifsson skrifar
Al-Kushayb er sá fyrsti sem dreginn er fyrir Alþjóðaglæpadómstólinn í Haag vegna grimmdarverkanna í Darfúr.
Al-Kushayb er sá fyrsti sem dreginn er fyrir Alþjóðaglæpadómstólinn í Haag vegna grimmdarverkanna í Darfúr. EPA

Alþjóðaglæpadómstóllinn í Haag hefur sakfellt súdanska uppreisnarleiðtogann Ali Muhammad Ali Abd-Al-Rahman, einnig þekktur sem Ali Kushayb, fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni vegna brota sem framin voru í Darfúr-héraði í Súdan fyrir rúmum tveimur áratugum síðan.

Dómstóllinn kvað upp sinn dóm í gær. Ali Kushayb var einn leiðtoga Janjaweed, uppreisnarsveita sem nutu stuðnings súdanskra stjórnvalda á sínum tíma og herjuðu á íbúa í Darfúr. Hundruð þúsund íbúa Darfúr létu lífið í átökunum.

Al-Kushayb er sá fyrsti sem dreginn er fyrir Alþjóðaglæpadómstólinn í Haag vegna grimmdarverkanna í Darfúr. Málsvörn hans gekk út á að saksóknarar í málinu hafi farið mannavillt.

Átökin í Darfúr stóðu milli 2003 til 2020 og eru talin vera ein af mestu hörmungum sögunnar á sviði mannúðar þar sem þjóðernishreinsanir gegn þeim íbúum svæðisins sem ekki voru arabar viðgengust um árabil.

Í málinu lýstu vitni því hvernig heilu þorpin voru brennd til grunna, karlmenn og drengir stráfelldir og konur sendar í kynlífsánauð.

Joanna Korner, dómari í málinu, sagði í gær að sannað þótti að Ali Kushayb hafi hvatt til og gefið fyrirskipanir til liðsmanna Janjaweed sem leiddu til drápa á fjölda fólks, nauðgana og eyðileggingar.

Hann var sakfelldur í 27 ákæruliðum sem sneru að mestu um brot sem framin voru á árunum 20023 og 2004.

Refsing í málinu verður kveðin upp síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×