Fótbolti

Tuchel með fast skot á stuðnings­menn: „Það var al­gjör þögn á leik­vangnum“

Sindri Sverrisson skrifar
Thomas Tuchel faðmar Bukayo Saka, einn af markaskorurum Englands í kyrrðinni á Wembley í kvöld.
Thomas Tuchel faðmar Bukayo Saka, einn af markaskorurum Englands í kyrrðinni á Wembley í kvöld. Getty/Catherine Ivill

Thomas Tuchel, hinn þýski landsliðsþjálfari Englands, segir það hafa verið sorglegt að sjá hve lítil stemning var á Wembley í kvöld þegar England vann Wales 3-0 í vináttulandsleik í fótbolta.

Liðin eru bæði í miðri undankeppni HM en það er aðeins formsatriði fyrir Englendinga að tryggja sér HM-farseðilinn og þeir buðu upp á flottan leik í kvöld. Morgan Rogers, Ollie Watkins og Bukayo Saka skoruðu mörkin á fyrstu tuttugu mínútum leiksins en það virðist ekki hafa dugað til að kveikja í stuðningsmönnum Englands.

„Leikvangurinn var alveg hljóður. Við fengum enga orku til baka frá stúkunni. Við gerðum sjálfir allt til að vinna,“ sagði Tuchel í viðtali við ITV strax eftir leik.

„Ef að maður heyrir bara í stuðningsmönnum Wales þá er það frekar sorglegt. Liðið átti skilið að fá mikinn stuðning í kvöld,“ sagði Tuchel.

„Stend við það sem ég sagði“

Þegar BBC ræddi svo við hann og spurði út í þessi ummæli var Þjóðverjinn enn á sama máli:

„Ég stend við það sem ég sagði. Við getum ekki gert mikið meira en unnið 3-0 í svona grannaslag. Ég vildi óska að við hefðum fengið aðeins meiri stuðning þegar það komu erfiðir kaflar. Að þeir hefðu stutt okkur í seinni hálfleiknum því það var aðeins of mikill stuðningur við Wales,“ sagði Tuchel.

„Þetta hefði getað hjálpað okkur að fá meiri orku en svona er þetta bara,“ bætti hann við.

England hefur átt fullkomna undankeppni til þessa fyrir HM og er með 15 stig eftir fimm leiki, 13 mörk skoruð og ekkert fengið á sig. Liðið er sjö stigum á undan Albaníu og átta á undan Serbíu sem reyndar á fjóra leiki eftir en England þrjá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×