Fótbolti

Rúnar þakkar fyrir stuðning eftir mikið sjokk

Sindri Sverrisson skrifar
Rúnar Þór Sigurgeirsson var aðeins búinn að vera hjá SönderjyskE í mánuð þegar hann meiddist alvarlega.
Rúnar Þór Sigurgeirsson var aðeins búinn að vera hjá SönderjyskE í mánuð þegar hann meiddist alvarlega. Sönderjyske

Hinn 25 ára gamli Rúnar Þór Sigurgeirsson, sem á að baki tvo A-landsleiki, mun sennilega ekki spila fótbolta aftur fyrr en næsta sumar.

Rúnar greindi frá því á Instagram í dag að hann hefði slitið krossband í hné og því ljóst að hans bíður langt og krefjandi bataferli.

„Ekki beint drauma byrjun í nýju liði og mikið shock, slitið krossband,“ skrifaði Rúnar á Instagram en hann gekk í raðir danska félagsins Sönderjyske frá Willem II í Hollandi fyrir rúmum mánuði síðan.

Rúnar náði aðeins að spila þrjá leiki í dönsku úrvalsdeildinni áður en hann meiddist en hann ætlar sér að snúa aftur á fótboltavöllinn enn sterkari en áður.

„Það koma hindranir á leiðinni og þarna lenti ég á einni. Virkilega þakklátur fyrir alla í kringum mig sem styðja mig og munu hiklaust hjálpa mér að koma sterkari til baka!“ skrifar Rúnar.

Rúnar hóf feril sinn með Keflavík en þessi öflugi vinstri bakvörður hefur síðan leikið með Öster í Svíþjóð, Willem II og nú síðast Sönderjyske. Hans fyrsti landsleikur var vináttulandsleikur við Mexíkó 2021 og hann mætti svo Sádi-Arabíu í vináttulandsleik í nóvember 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×