Erlent

Gengst við því að hafa grandað farþegaþotunni

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AP/Grigory Sysoyev, Sputnik

Vladímír Pútín Rússlandsforseti viðurkenndi þátt rússneskra loftvarna í hrapi aserskrar farþegaþotu í lofthelgi Rússlands í desember á síðasta ári. Þrátíu og átta fórust með flugvélinni.

Á fundi Pútíns og Ilhams Aliyev forseta Aserbaídsjan sem fram fór í Dúsjanbe, höfuðborg Tadsjíkistan, í gærkvöldi sagði Pútín að rússneskar loftvarnaeldflaugar sem höfðu úkraínska dróna að skotmarki, hefðu sprungið í nánd við farþegaþotu Azerbaijan Airlines þegar hún bjó sig til lendingar í Grosníj í Tjétjéníu.

Asersk yfirvöld sökuðu Rússa strax um að hafa grandað þotunni. Pútín bað Aliyev forseta afsökunar fáeinum dögum seinna en gekkst ekki við þætti Rússa í hrapinu. Aliyev forseti gagnrýndi rússnesk stjórnvöld í kjölfarið.

Á fundi þjóðhöfðingjanna hafði Pútín orð á því, að því er Guardian greinir frá, að rússneskar loftvarnir hefðu fyrir slysni gert farþegaþotuna að skotmarki og að tvær eldflaugar hafi sprungið aðeins tíu metrum frá þotunni.

„Rússland mun auðvitað gera allt sem í þess valdi stendur til að bæta upp fyrir þetta og rannsaka þátt allra ábyrgðaraðila,“ sagði Pútín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×