Sport

Vann Djokovic og tvö­faldaði verðlaunaféð á öllum ferli sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valentin Vacherot trúði því varla að hann hafði slegið út sjálfan Novak Djokovic.
Valentin Vacherot trúði því varla að hann hafði slegið út sjálfan Novak Djokovic. Getty/Lintao Zhang

Novak Djokovic er óvænt úr leik á Masters 1000-mótinu í Sjanghæ í Kína eftir tap á móti líttþekktum tenniskappa.

Hinn 38 ára gamli Djokovic tapaði í tveimur settum á móti Valentin Vacherot frá Mónakó.

Vacherot er í 204. sæti heimslistans og komst inn í aðalkeppni Masters 1000-mótsins í gegnum undankeppni. Nú gæti hann farið alla leið. Til samanburðar er Djokovic í fimmta sæti heimslistans og hefur unnið mótið í Sjanghæ fjórum sinnum áður.

Í úrslitaleiknum bíður annaðhvort Daniil Medvedev eða Arthur Rinderknech hins 26 ára gamla Vacherot.

Það sést kannski best á hversu óvænt þetta er að Vacherot var fyrir þetta mót búinn að vinna sér inn alls 594 þúsund Bandaríkjadali á öllum ferlinum eða tæpar 73 milljónir króna.

Vacherot er með sigrinum á Djokovic þegar búinn að tryggja sér 597 þúsund dollara í verðlaunafé á þessu móti, rúmar 73 milljónir króna, og hefur með því tvöfaldað verðlaunaféð á öllum ferli sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×