Fótbolti

Gætu tekið HM-metið af okkur Ís­lendingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar settu met þegar þeir komust inn á HM 2018 enda Ísland fámennasta þjóðin. Nú eru stuðningmenn Curacao að upplifa HM-drauminn og heimsmeistaramótið nálgast með hverjum sigurleik.
Gylfi Þór Sigurðsson og félagar settu met þegar þeir komust inn á HM 2018 enda Ísland fámennasta þjóðin. Nú eru stuðningmenn Curacao að upplifa HM-drauminn og heimsmeistaramótið nálgast með hverjum sigurleik. Getty/Jan Kruger/ANP

Ísland er í dag fámennasta þjóðin sem hefur tekið þátt í heimsmeistarakeppni karla í fótbolta en verður það kannski ekki mikið lengur.

Ísland setti metið með því að tryggja sér sæti á heimsmeistaramótinu í Rússlandi sumarið 2018. Nú er þetta met Íslands í mikilli hættu þökk sé fámennri þjóð úr Karabíska hafinu.

Curacao er í góðum málum í sínum riðli í undankeppni Norður- og Mið-Ameríku eftir 2-0 sigur á Jamaíku um helgina.

Landsliðsmenn Curacao hafa staðið sig frábærlega í undankeppni HM til þessa.Getty/ANP

Curacao er í efsta sæti riðilsins með sjö stig, einu stigi meira en Jamaíka. Það eru þrír leikir eftir og því níu stig eftir í pottinum. Efsta liðið tryggir sig inn á heimsmeistaramótið í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada.

Lokaleikurinn í riðlinum verður á milli Jamaíka og Curacao í nóvember en hann fer fram í Kingston í Jamaíku.

Curacao gerði jafntefli við Trínidad á útivelli í fyrsta leik en hefur síðan unnið tvo heimaleiki í röð á móti Bermúda (3-2) og svo þennan sigur á Jamaíka. Leikurinn var spilaður á Ergilio Hato-leikvanginum í Willemstad, höfuðborg Curacao, sem tekur rúmlega níu þúsund manns.

Curacao er eyríki í Karíbahafi, um 65 km undan strönd Venesúela. Það er rétt við Suður-Ameríku.

Íslendingar voru rúmlega 350 þúsund þegar íslenska karlalandsliðið tryggði sig inn á HM fyrir átta árum.

Það búa hins vegar aðeins 185 þúsund manns á Curacao og allt landið er aðeins 444 ferkílómetrar, eða minna en Reykjanesið.

Það er því ljóst að Ísland missir metið takist Curacao að klára dæmið. Það fylgir þó sögunni að Curacao á eftir tvo útileiki en tveir af síðustu þremur leikjum Jamaíkumanna eru á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×