Fótbolti

Missir af lands­leik eftir á­rekstur við stöngina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ollie Watkins var sýnilega kvalinn eftir að hafa lent á stönginni í vináttuleiknum gegn Wales á fimmtudaginn.
Ollie Watkins var sýnilega kvalinn eftir að hafa lent á stönginni í vináttuleiknum gegn Wales á fimmtudaginn. getty/Marc Atkins

Ollie Watkins, framherji Aston Villa, hefur dregið sig úr enska landsliðinu sem mætir Lettlandi í undankeppni HM 2026 á morgun.

Watkins varð fyrir meiðslum þegar hann lenti á stönginni í leiknum gegn Wales á fimmtudaginn. Englendingar unnu 3-0 sigur en öll mörkin komu á fyrstu tuttugu mínútum leiksins.

Hinn 29 ára Watkins skoraði annað mark Englands í leiknum en skömmu fyrir hálfleik meiddist hann á vinstri fæti þegar hann lenti á annarri stöng marks Wales. Watkins sneri aftur á völlinn eftir að hafa fengið meðhöndlun en var tekinn út af í hálfleik.

Watkins hefur ekki jafnað sig á meiðslunum því hann verður ekki með enska liðinu gegn því lettneska á morgun.

England er með fullt hús stiga á toppi K-riðils undankeppni HM og tryggir sér sæti í lokakeppninni með sigri í Ríga á morgun. Englendingar unnu fyrri leikinn gegn Lettum, 3-0.

Watkins hefur skorað sex mörk í tuttugu landsleikjum. Hann hefur skorað eitt mark fyrir Villa á þessu tímabili en hann hefur verið hjá liðinu síðan 2021. Næsti leikur Villa er gegn Tottenham á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×