Innlent

Nær­liggjandi hús rýmt þegar eldur kom upp á Ásbrú í morgun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ásbrú í Reykjanesbæ.
Ásbrú í Reykjanesbæ.

Eldur kom upp í iðnaðarhúsnæði við Klettatröð á Ásbrú í Reykjanesbæ í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Suðurnesja er húsið um það bil 900 fm að stærð og hýsir Köfunarþjónustu Sigurðar og bílapartasölu.

Allt tiltækt lið var kallað út og búið er að ná tökum á eldinum sem var mikill í fyrstu, að sögn Eyþórs Rúnars Þórarinssonar slökkviliðsstjóra.  

„Við fengum tilkynningu rúmlega fjögur í nótt um að eldur væri kviknaður. Þetta eru tvö fyrirtæki, köfunarþjónusta og partasala, og það var töluverður eldur í viðbyggingu á bakvið sem var búinn að læsa sig í þakið.“

Eyþór segir að slökkvistarf hafi gengið ágætlega og að tekist hafi að halda eldinum í annarri álmu hússins en vernda hina. Hann segir að húsið hafi verið mannlaust og að eldurinn hafi líklegast kraumað í viðbygginguni frá því í gærkvöldi, þegar menn voru þar við vinnu. 

Íbúar voru í nærliggjandi húsi og segir Eyþór að það hús hafi verið rýmt. „Ég veit ekki alveg fjöldann sem var þar inni en það var rýmt þegar reykurinn stóð á það í nótt,“ segir Eyþór.

Lögregla mun rannsaka eldsupptök þegar búið er að tryggja að enginn eldur sé eftir í byggingunni.

Veistu meira? Áttu myndir af vettvangi? Sendu okkur á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×