Innlent

Lést sam­stundis þegar ekið var á hana á 143 kíló­metra hraða

Samúel Karl Ólason skrifar
Staðurinn þar sem banaslysið varð.
Staðurinn þar sem banaslysið varð. Rannsóknarnefnd samgönguslysa

Gangandi kona sem ekið var á á Sæbraut þann 29. september 2024 lést samstundis. Hún varð fyrir bíl sem ekið var norður eftir Sæbrautinni á rúmlega tvöföldum hámarkshraða en konan gekk yfir götuna þó gönguljósið hafi verið rautt.

Engin hemlaför voru við bílinn þar sem honum var ekið á konuna og var bílnum keyrt um 660 metra áfram, áður en hann var stoppaður, samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa sem birt var í dag.

Þar kemur fram að ökumaðurinn sagðist ekki hafa séð konuna, sem var 37 ára gömul, en slysið var tilkynnt til lögreglu ellefu mínútum eftir miðnætti þann 29. september.

Samkvæmt útreikningum rannsakenda, sem byggja á myndbandi, var bílnum ekið eftir Sæbrautinni á um 132 kílómetra hraða. Gögn úr farsíma ökumannsins bentu til þess að ökuhraðinn hafi verið um 143 kílómetrar á klukkustund þegar slysið varð en hámarkshraði þar var sextíu.

Hraði bílsins var því meiri en tvöfaldur hámarkshraði. Ekki var hægt að fá upplýsingar um áreksturinn úr loftpúðatölvu bílsins vegna þess hve gamall hann var en um var að ræða Audi, sem nýskráður var árið 2011.

Myrkur var þegar slysið varð en kveikt á vegalýsingu með gulleitu ljósi, samkvæmt skýrslunni. Ljósastaurarnir voru á umferðareyju milli akbrauta og einn þeirra staðsettur við gönguleiðina yfir Sæbraut þar sem ekið var á konuna.

Þá var vegurinn blautur þegar slysið varð en eins og áður segir voru engin bremsuför á vettvangi.

Ekkert var að bílnum sem rannsóknarnefndin segir að mætti rekja orsakir slyssins til. Þá mældist engin lyf eða áfengi í blóði ökumannsins, sem var einn í bílnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×