Enski boltinn

Sjáðu öll mörk Salahs gegn United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah hefur komið að 22 mörkum í sautján leikjum gegn Manchester United.
Mohamed Salah hefur komið að 22 mörkum í sautján leikjum gegn Manchester United. getty/Liverpool FC

Á sunnudaginn tekur Liverpool á móti Manchester United í stórleik 8. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar. Heldur Mohamed Salah áfram að gera Rauðu djöflunum grikk?

Síðan Salah gekk í raðir Liverpool 2017 hefur hann sautján sinnum mætt United. Í þessum leikjum hefur hann skorað sextán mörk og lagt upp sex.

United og Tottenham eru þau félög sem Salah hefur skorað flest mörk gegn á ferlinum (sextán mörk). Þar á eftir koma Manchester City og West Ham United (þrettán mörk).

Salah skoraði eitt mark og lagði upp tvö þegar Liverpool sigraði United, 0-3, í fyrri deildarleik liðanna á síðasta tímabili. Hann skoraði einnig í seinni leiknum sem endaði með 2-2 jafntefli.

Klippa: Öll mörk og stoðsendingar Salah gegn Man. Utd.

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá öll mörk og allar stoðsendingar Salahs gegn United í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool tapaði síðustu þremur leikjum sínum fyrir landsleikjahléið, þar af tveimur í ensku úrvalsdeildinni. Liðið er í 2. sæti hennar með fimmtán stig, einu stigi á eftir Arsenal.

United vann Sunderland, 2-0, í síðasta leik sínum fyrir landsleikjahléið og gerir núna enn eina tilraunina til að vinna tvo deildarleiki í röð. Það hefur ekki gerst síðan Ruben Amorim tók við United fyrir um ári.

Leikur Liverpool og Manchester United hefst klukkan 15:30 á sunnudaginn og verður sýndur beint á Sýn Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 14:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×