Viðskipti innlent

Lands­bankinn setur lánaumsóknir á ís vegna dómsins

Árni Sæberg skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans. Vísir/Vilhelm

Landsbankinn telur að dómur Hæstaréttar í gær gefi tilefni til þess að fara yfir skilmála um breytilega vexti í nýjum íbúðalánum. Móttaka nýrra umsókna um íbúðalán verður því sett á bið fram yfir helgi, en unnið verður með viðskiptavinum að afgreiðslu þeirra lánsumsókna sem þegar eru í vinnslu hjá bankanum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í tilkynningu á vef Landsbankans í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli tveggja lánþega á hendur Íslandsbanka. Skilmálar óverðtryggðs láns á breytilegum vöxtum voru ógiltir að hluta með dóminum.

Í tilkynningu Landsbankans segir að Hæstiréttur eigi eftir að dæma í máli sem var höfðað gegn Landsbankanum og varði sambærileg álitaefni. Málin séu þó ekki eins að öllu leyti, meðal annars að því er varðar orðalag skilmálans um breytilega vexti, málsatvik og málsástæður. 

Á þessu stigi sé það mat Landsbankans að þörf sé á umfjöllun og niðurstöðu Hæstaréttar um ákveðin atriði í framangreindu máli bankans til þess að unnt sé að taka afstöðu til vaxtabreytinga sem gerðar hafa verið á sambærilegum lánum bankans.

„Þrátt fyrir þetta er það mat bankans að dómur Hæstaréttar gefi tilefni til þess að fara yfir skilmála um breytilega vexti í nýjum íbúðalánum. Móttaka nýrra umsókna um íbúðalán verður því sett á bið fram yfir helgi, en unnið verður með viðskiptavinum að afgreiðslu þeirra lánsumsókna sem þegar eru í vinnslu hjá bankanum.“

Í árshlutareikningi samstæðu Landsbankans fyrir annan ársfjórðung 2025 séu veittar upplýsingar um bráðabirgðamat bankans á mögulegum fjárhagslegum áhrifum þess á bankann ef endanleg dómsniðurstaða í málinu yrði óhagstæð bankanum. Bankinn muni yfirfara matið í uppgjöri þriðja ársfjórðungs, sem verði birt 23. október næstkomandi.


Tengdar fréttir

Bankinn hefur sam­band ef hann skuldar þér pening

Íslandsbanki ætlar að hafa frumkvæði að því að endurgreiða viðskiptavinum sem hafa greitt of mikið af fasteignalánum sínum, samkvæmt vaxtadómi Hæstaréttar, að sögn bankastjóra. Nú sé verið að skoða hvað það séu margir. Frummat á fjárhagslegu tjóni bankans er þegar komið fram. Bankastjóri útilokar ekki að þriðji aðili endurreikni líka lánasamninga.

Skilmálar Arion frábrugðnir en áhrifin væru óveruleg

Arion banki bendir á að skilmálar íbúðalána bankans með ákvæðum um breytilega vexti séu frábrugðnir þeim sem fjallað er um í dómi Hæstaréttar í málinu gegn Íslandsbanka og því sé erfitt að meta nákvæm áhrif af dómnum á lán Arion banka með óverðtryggðum vöxtum. Að því gefnu að sambærileg niðurstaða fengist í ágreiningsmáli um lán Arion banka með óverðtryggðum vöxtum sé það bráðabirgðamat bankans að fjárhagsleg áhrif slíkrar niðurstöðu yrðu óveruleg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×