Fótbolti

Sif kláraði sögu­legt ferða­lag og öðlaðist dýpri skilning á vist­kerfi fót­boltans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sif Atladóttir fagnar útskriftinni og áfanganum með dóttur sinni.
Sif Atladóttir fagnar útskriftinni og áfanganum með dóttur sinni. @sifatla

Íslenska knattspyrnukonan Sif Atladóttir er kannski hætt að spila fótbolta en fótboltinn verður áfram stór hluti af hennar lífi. Hún náði sér á dögunum í flotta gráðu hjá Knattspyrnusambandi Evrópu.

Sif varð þá ásamt Bjarna Þór Viðarssyni fyrsti Íslendingurinn til að útskrifast með UEFA MIP-prófið. Þau voru að klára en Alfreð Finnbogason er síðan að hefja sama nám.

„Þvílíkt ferðalag sem við höfum verið á. Það er alltaf gefandi að ljúka einhverju sem maður hefur lagt hart að sér til að ná, en að gera það með þessu fólki var sannarlega einstakt,“ skrifaði Sif á samfélagsmiðla sína.

Námið tók hana tvö ár og hún hefur trú á því að hópurinn sem hún útskrifaðist með muni jafnvel gera einhverja góða hluti saman í framtíðinni.

„Að öðlast dýpri skilning á vistkerfi fótboltans, hlusta á þá bestu af þeim bestu í bransanum og aðlaga fræðilega hugsun að heimi fótboltans er aðeins toppurinn á ísjakanum af því sem við gerðum,“ skrifaði Sif.

Hún segist vera virkilega stolt af því að vera hluti af MIP5.

„Þó að útskriftinni sé nú lokið er þetta aðeins byrjunin. Við stefnum enn að því að verða næsta kynslóð leiðtoga og nú höfum við samfélagið okkar okkur við hlið,“ skrifaði Sif.

Sif lék á sínum tíma 90 landsleiki fyrir Ísland og fór á fjögur Evrópumót með liðinu. Hún varð þrisvar Íslandsmeistari með Val áður en hún spilaði sem atvinnumaður í meira en áratug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×