Viðskipti innlent

Grunnlán nær nú að­eins til helmings kaup­verðs

Árni Sæberg skrifar
Jón Guðni Ómarsson er bankastjóri Íslandsbanka.
Jón Guðni Ómarsson er bankastjóri Íslandsbanka. Vísir/Anton Brink

Íslandsbanki hefur ákveðið að grunnlán í fasteignakaupum miðast nú við aðeins helming af kaupverði. Restin sem lánað er fyrir flokkast sem viðbótarlán, sem eru oftar en ekki á verri kjörum en grunnlán.

Í svari bankans við fyrirspurn Vísis segir að viðmiðunum hafi verið breytt í september síðastliðnum á þann hátt að við fasteignakaup miðist grunnlán nú við 50 prósent af kaupverði en áður hafi það verið 70 prósent af fasteignamati. Viðbótarlán miði nú við frá 50 til 80 prósent af kaupverði en hafi áður verið frá 70 prósent af fasteignamati upp að 80 prósent af kaupverði.

Fyrstu kaupendur geta enn fjármagnað 85 prósent 

Í endurfjármögnun miðist grunnlán nú við 50 prósent af fasteignamati og viðbótarlán frá 50 til 70 prósent af fasteignamati. Áður hafi grunnlán verið frá 0 til 70 prósent af fasteignamati. 

Fyrstu kaupendum standi enn til boða húsnæðisfjármögnun að hámarki allt að 85 prósent af kaupverði íbúðarhúsnæðis.

Innleiðing reglugerðar veldur breytingunum

Þá segir að breytingarnar komi til vegna reglugerðar sem verið sé að innleiða um eiginfjárbindingu, svonefnda CRR III-reglugerð. 

Gert sé ráð fyrir að frumvarp verði lagt fyrir á næstunni en meginreglan hingað til hafi verið að eiginfjárbinding vegna húsnæðislána sé 35 prósent fyrir þann hluta láns sem er upp að 80 prósent veðhlutfalli en 75 prósent fyrir þann hluta sem er yfir 80 prósent veðsetningu. 

Með innleiðingu áðurnefndrar CRR III-reglugerðar breytist þessi viðmið á þann hátt að eiginfjárbinding þess hluta húsnæðislána sem er upp að 55 prósent veðsetningu verði 20 prósent en eiginfjárbinding þess hluta sem er umfram það 75 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×