Handbolti

Ís­lensku strákarnir á­berandi í Evrópudeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Donni, Kristján Örn Kristjánsson, átti góðan leik í kvöld.
Donni, Kristján Örn Kristjánsson, átti góðan leik í kvöld. Vísir/Vilhelm

Fjögur Íslendingalið voru á ferðinni í fyrri leikjum kvöldsins í Evrópudeildinni í handbolta. Íslensku leikmennirnir voru flestir í stórum hlutverkum hjá sínum liðum.

Kristján Örn Kristjánsson átti flottan leik með Skanderborg AGF í fjögurra marka heimasigri á slóvenska liðinu RD LL Grosist Slovan, 34-30. Kristján Örn skoraði fimm mörk og var í hópi markahæstu manna liðsins. Skanderborg hefur unnið tvo fyrstu leiki sína.

Birgir Steinn Jónsson var markahæstur hjá Sävehof en það dugði bara í 29-29 jafntefli á heimavelli á móti danska félaginu Fredericia. Birgir skoraði sex mörk úr sjö skotum. Sävehof hefur gert jafntefli í báðum leikjum sínum.

Óðinn Þór Ríkharðsson var markahæstur hjá Kadetten Schaffhausen en það dugði skammt því liðið tapaði 29-26 á útivelli á móti serbneska liðinu RK Partizan AdmiralBet. Óðinn Þór skoraði sex mörk úr sjö skotum. Kadetten hafði unnið fyrsta leikinn sinn.

Einar Bragi Aðalsteinsson og félagar í Kristianstad gerðu 32-32 jafntefli við MRK Sesvete á útivelli. Einar skoraði eitt mark úr fjórum skotum. Kristianstad er með þrjú stig af fjórum mögulegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×