Körfubolti

Ný­liðar KR stöðvuðu sigur­göngu Njarð­víkur og fyrsti sigurinn í 65 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rebekka Rut Steingrímsdóttir átti frábæran leik fyrir KR í kvöld.
Rebekka Rut Steingrímsdóttir átti frábæran leik fyrir KR í kvöld. Vísir/Anton Brink

Ármann vann í kvöld sinn fyrsta sigur í Bónus deild kvenna í körfubolta á þessari leiktíð og þar með fyrsta sigur kvennaliðs félagsins í efstu deild frá 1960. Á sama tíma stöðvuðu hinir nýliðarnir í KR sigurgöngu Njarðvíkurliðsins.

KR vann sjö stiga sigur á Njarðvík í Vesturbænum en Njarðvíkurkonur voru búnar að vinna fyrstu þrjá leiki sína á tímabilinu.

KR vann leikinn 89-82 eftir að hafa verið 46-44 yfir í hálfleik. Frábær og óvæntur sigur hjá KR-konum sem ætla að vera með í baráttunni í Bónus deild kvenna í vetur.

Rebekka Rut Steingrímsdóttir var frábær hjá KR með 19 stig og 10 stoðsendingar en Molly Kaiser var stigahæst með 27 stig. Kristrún Ríkey Ólafsdóttir var einnig mjög öflug með 13 stig og 15 fráköst.

Brittany Dinkins skoraði 25 stig fyrir Njarðvík og Danielle Rodriguez var með 21 stig. Njarðvík fékk hins vegar aðeins samtals 20 stig frá íslensku leikmönnunum sínum í kvöld.

Ármann mætti Icelandic Glacial höllina í Þorlákshöfn og vann fimm stiga sigur á Hamar/Þór, 78-73.

Bæði liðin höfðu tapað þremur fyrstu leikjum sínum á tímabilinu. Þetta var fyrsti sigur Ármanns í deild þeirra bestu í 65 ár.

Dzana Crnac var frábær í Ármannsliðinu með 25 stig, Sylvía Rún Hálfdanardóttir var með 21 stig og 8 fráköst og Khiana Johnson bætti við 20 stigum.

Jadakiss Guinn skoraði 24 stig fyrir Hamar/Þór og Jóhanna Ýr Ágústsdóttir var með 14 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×